Körfubolti

„Maður er svo trú­gjarn, maður trúir á deja vu“

Haraldur Örn Haraldsson skrifar
Hákon Hjartarson er þjálfari Hamars/Þórs liðsins en nýliðarnir unnu frábæran sigur í kvöld.
Hákon Hjartarson er þjálfari Hamars/Þórs liðsins en nýliðarnir unnu frábæran sigur í kvöld. Vísir/Anton Brink

Hamar/Þór vann í kvöld mikilvægan sigur gegn Stjörnunni 72-78. Lokamínúturnar voru gríðarlega spennandi en Hákon Hjartarson þjálfari liðsins var ánægður með frammistöðu sinna kvenna.

„Það var bara frábært að koma hérna í Ásgarð að vinna þetta sterka og vel þjálfaða lið. Ég er bara mjög ánægður með stelpurnar mínar,“ sagði Hákon.

Hamar/Þór var með yfirhöndina allan leikinn fram að lokakaflanum í fjórða leikhluta. Þá komu Stjörnu konur af fullum krafti og voru nálægt því að stela sigrinum.

„Maður er svo trúgjarn, maður trúir á deja vu og eitthvað svona. Undanfarnir tveir leikir hafa verið þannig, við töpum fyrir Aþenu þegar við erum fjórum stigum eftir og 30 sekúndur eftir. Við gerðum líka heiðarlega tilraun að klúðra Tindastóls leiknum um helgina. Þannig það fór auðvitað um mann. En þegar Abby setur þristinn þá róaðist maður aðeins,“ sagði Hákon.

Abby Beeman átti algjöran stjörnuleik fyrir Hamar/Þór í kvöld þar sem hún setti 32 stig, 13 fráköst og var með 12 stoðsendingar. Gríðarlega mikilvægur leikmaður fyrir þetta lið.

„Hún er bara sturlaður karakter líka, hún er að þjálfa hjá okkur og maður þarf stundum aðeins að klípa í hana til að athuga hvort hún sé lifandi. Manni finnst ekki renna í henni blóðið, eina skiptið sem hún verður reið, það er þegar hún tapar. Hún hatar ekkert meira en að tapa. Stelpurnar græða líka mikið á þessu, þær eru fá opnari skot af því það er verið að reyna að stoppa hana,“ sagði Hákon.

Þrír úrslitaleikir eftir

Framundan eru gríðarlega mikilvægir leikir fyrir Hamar/Þór, þar sem þær munu keppa í undanúrslitum bikarsins. Auk þess sem það er aðeins einn leikur eftir af deildarkeppni þar sem úrslitakeppnissæti er í húfi.

„Við förum og gerum okkur klára fyrir undanúrslit í bikar, svo eigum við Grindavík í síðustu umferð. Það verður duga eða drepast leikur. Við erum komin með innbyrðis á Tindastól og Stjörnuna en erum jöfn þeim að stigum,“ sagði Hákon.

Tveir gríðarlega mikilvægir leikir framundan en Hákon vill helst hafa þá þrjá.

„Við eigum reyndar þrjá úrslitaleiki eftir áður en úrslitakeppnin byrjar. Það er ss. undanúrslit í bikar, úrslitin í bikar og svo einn úrslitaleikur í deildinni,“ sagði Hákon.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×