Körfubolti

Jokic vann upp­gjörið við Gilgeous-Alexander

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Nikola Jokic verst Shai Gilgeous-Alexander.
Nikola Jokic verst Shai Gilgeous-Alexander. ap/Nate Billings

Nikola Jokic hafði betur í uppgjörinu við Shai Gilgeous-Alexander þegar Denver Nuggets og Oklahoma City Thunder mættust í NBA-deildinni í nótt.

Jokic og Gilgeous-Alexander hafa að flestra mati verið bestu leikmenn NBA í vetur og annar hvor þeirra verður væntanlega valinn verðmætasti leikmaður deildarinnar (MVP).

Gilgeous-Alexander og félagar í Oklahoma höfðu betur gegn Denver á sunnudaginn, 127-103, en í nótt náðu Jokic og félagar fram hefndum og unnu þrettán stiga sigur, 127-140.

Jokic skoraði 35 stig í leiknum í nótt, tók átján fráköst og gaf átta stoðsendingar. Hann hitti úr fimmtán af tuttugu skotum sínum. Jamal Murray lagði til 34 stig, Michael Porter skoraði sautján og Peyton Watson og Russell Westbrook sitt hvor sextán stigin.

Gilgeous-Alexander skoraði 25 stig og gaf sjö stoðsendingar fyrir Oklahoma sem er á toppi Vesturdeildarinnar með 53 sigra og tólf töp. Denver er með 42 sigra og 23 töp í 2. sætinu.

Gilgeous-Alexander er stigahæsti leikmaður NBA í vetur með 32,7 stig að meðaltali í leik. Auk þess er hann með 5,1 frákast og 6,2 stoðsendingar.

Jokic er aftur á móti með þrefalda tvennu að meðaltali í leik á tímabilinu; 28,9 stig, 13,0 fráköst og 10,5 stoðsendingar. Hann var valinn MVP deildarinnar 2021, 2022 og 2024.

NBA



Fleiri fréttir

Sjá meira


×