Handbolti

Ljónin stað­festa komu Hauks rétt fyrir lands­leik

Sindri Sverrisson skrifar
Haukur Þrastarson með Uwe Gensheimer, yfirmanni íþróttamála hjá Rhein Neckar Löwen.
Haukur Þrastarson með Uwe Gensheimer, yfirmanni íþróttamála hjá Rhein Neckar Löwen. Facebook/@rnloewen

Þýska félagið Rhein-Neckar Löwen hefur nú greint opinberlega frá því að félagið hafi samið við hinn 23 ára gamla Hauk Þrastarson um að koma til félagsins í sumar.

Legið hefur í loftinu að Haukur færi frá Dinamo Búkarest til Löwen og ljóst að hann uppfyllir þar með ósk landsliðsþjálfarans Snorra Steins Guðjónssonar sem eftir HM sagðist telja að Haukur þyrfti að komast að í sterkari deild. Nú er hann á leiðinni í öflugt lið í sterkustu landsdeild heims.

Athygli vekur að Löwen skuli greina frá komu Hauks í dag, rétt fyrir landsleik Íslands og Grikklands sem hefst klukkan 17 í Grikklandi.

Í tilkynningu félagsins segir Uwe Gensheimer, fyrrverandi hornamaður Löwen og þýska landsliðsins en nú íþróttastjóri félagsins:

„Haukur er með himinháa handbolta-greindarvísitölu, vinnur afar vel með línumanninum og getur stýrt sóknarleiknum afar vel. Því miður hafa meiðsli hægt á honum í gegnum tíðina. Ég held að Löwen sé hárrétt skref fyrir hann til að ná fram sínu allra besta.“

Sjálfur er Selfyssingurinn afar spenntur fyrir vistaskiptunum:

„Í viðræðum mínum við stjórnendur Löwen kom fljótt í ljós hve mikið þeir vildu fá mig og hve stórt hlutverk mér væri ætlað. Ég hlakka mikið til að spila við bestu lið og leikmenn heims í þýsku deildinni og ég er viss um að þessi áskorun mun móta mig enn frekar sem handboltamann og karakter,“ sagði Haukur.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×