Erlent

Segist opinn fyrir vopna­hléi með skil­yrðum

Samúel Karl Ólason skrifar
Vladimír Pútín, forseti Rússlands.
Vladimír Pútín, forseti Rússlands. AP/Maxim Shemetov

Valdimír Pútín, forseti Rússlands, segist heilt yfir hlynntur því að samþykkja þrjátíu daga vopnahlé í Úkraínu, en því fylgi ákveðin skilyrði og vandkvæði. Sagðist hann vilja að vopnahlé leiddi til langvarandi friðar og að „rætur“ innrásar Rússa í Úkraínu yrðu ávarpaðar.

Þetta er meðal þess sem Pútín sagði á fundi með Alexander Lúkasjenka, einræðisherra Belarús.

Pútín sagði einnig að rússneskir hermenn væru í framsókn á öllum hlutum víglínunnar og sagði óljóst hvaða áhrif vopnahlé myndi hafa þar. Erfitt væri að segja til um hver bæri ábyrgð á brotum gegn vopnahléi á tvö þúsund kílómetra víglínu.

Hann sagðist mögulega ætla að ræða málið frekar við Donald Trump, forseta Bandaríkjanna.

Meðal þeirra krafna sem ráðamenn í Rússlandi hafa opinberað vegna innrásarinnar í Úkraínu er að fá fjögur héruð Úkraínu, sem þeir stjórna ekki að fullu, auk Krímskaga, að Úkraína afvopnist, fái ekki inngöngu í NATO og jafnvel það að NATO hörfi alfarið frá Austur-Evrópu.

Kröfurnar fela í raun í sér uppgjöf Úkraínu og varnarleysi í framtíðinni.

Sjá einnig: Ráð­gjafi Pútíns segir til­lögu Trumps til­gangs­lausa

Pútín fjallaði einnig um ástandið í Kúrsk, þar sem úkraínskir hermenn hafa verið á undanhaldi síðustu daga. Sagði hann þá Úkraínumenn sem væru þar enn standa fyrir tveimur valmöguleikum. Að gefast upp eða falla. Þá velti hann vöngum yfir því hvað þrjátíu daga vopnahlé fæli í sér fyrir þá hermenn.

„Þýddi það að þeir fari allir? Ættum við að sleppa þeim eftir að þeir hafa framið fjölmarga glæpi?“

Hann sagði einnig að Úkraínumenn mættu ekki nota vopnahlé til að fylla upp í raðir sínar og tryggja birgðir hersveita. Úkraínumenn  mættu ekki nota vopnahléið til að styrkja varnir sínar og þjálfa menn sína.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×