Erlent

Saka Norð­menn um her­væðingu Sval­barða

Samúel Karl Ólason skrifar
Frá Svalbarða sem lútir stjórn Norðmanna en þar má einnig finna rússneska byggð.
Frá Svalbarða sem lútir stjórn Norðmanna en þar má einnig finna rússneska byggð. AFP/Jonathan Nackstrand

Yfirvöld í Rússlandi sökuðu í dag Norðmenn um að hervæða Svalbarða. Slíkt valdi spennu og auki hættuna á átökum á norðurslóðum. Þetta kom fram á fundi erindreka utanríkisráðuneytis Rússlands með sendiherra Noregs í Rússlandi.

Svalbarði er eins og flestir vita eyjaklasi í Íshafi en Noregur fer með fullveldisréttindi þar samkvæmt Svalbarðasamningnum. Aðildarríki samningsins eru 46 talsins og er Ísland þar á meðal.

Samningurinn segir til um að ekki megi byggja varnarvirki eða flotastöðvar og að ekki megi nota Svalbarða í hernaðarlegum tilgangi.

Rússar hafa lengi nýtt sér auðlindir Svalbarða á grunni samningsins. Á áðurnefndum fundi í dag kvörtuðu Rússar yfir því að eyjaklasinn spilaði sífellt stærri rullu í hernaði Noregs, með aðkomu Bandaríkjanna og Atlantshafsbandalaginu.

Í tilkynningu á vef ráðuneytisins segir að ráðamenn í Moskvu kalli eftir því að Norðmenn láti af þessu meinta athæfi, þar sem það grafi undan lagalegum grunni samkomulagsins um stjórn Norðmanna á Svalbarða.

Í frétt Norska ríkisútvarpsins um tilkynninguna segir að norskir stjórnmálamenn hafi kallað eftir aukinni hernaðarlegri viðveru á Svalbarða. Þar á meðal eru embættismenn á eyjaklasanum.

Hefur slíkum ummælum meðal annars verið kastað fram í tengslum við aukna árásargirni Rússa og viðvarana vegna tilrauna þeirra til að grafa undan samheldni innan NATO og mögulega láta reyna á fimmtu grein stofnsáttmála bandalagsins um sameiginlegar varnir.

Sjá einnig: Segir skemmdarverk Rússa í Evrópu geta leitt til átaka

Jonas Gahr Støre, forsætisráðherra Noregs, hefur samkvæmt NRK ekki tekið vel í það og vísað til Svalbarðasamningsins. Hann hefur ítrekað að Norðmenn hafi ekki áhuga á aukinni spennu á norðurslóðum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×