Landris á Reykjanesskaga er nú meira en það hefur verið áður, að sögn prófessors í jarðeðlisfræði.
„Og nokkru hærra en í síðasta gosi og aðeins hærra en í þarsíðasta gosi. Það er svo að sjá að það er nánast víst að það gjósi á næstunni, það er hins vegar mjög erfitt að segja til um það nákvæmlega hvenær það verður. Hversu langt er í það, en það er nú sennilega ekki langt í það,“ segir Magnús Tumi Guðmundsson, prófessor í jarðeðlisfræði.
Næsta gos geti vel orðið það síðasta
Litlar breytingar sé að sjá á stöðunni, þrátt fyrir örlitlar sveiflur í GPS-mælingum, sem stafi líklega af veðurfari. Kvikusöfnun haldi áfram og ólíklegt sé að það endi öðruvísi en með eldgosi.
„Svo má spyrja sig, ef við horfum aðeins til lengri tíma: Hvað er líklegt að gerist? Það er náttúrulega bara óvissa. Það er ljóst að farið er að draga úr innrennsli kviku þarna, miðað við það sem var. Það bendir til þess að þetta sé nú komið vel á seinni hlutann, en hvenær síðasta gosið verður, það er ekki útilokað að það gos sem kemur næst verði það síðasta.“
Sé litið til Kröflu á níunda áratugnum megi álykta að langt muni líða milli eldgosa héðan af.
„Það bendir allt til þess að við séum komin mjög á seinni hlutann í þessari atburðarás.“
Ekkert öruggt en horfurnar góðar
Vinna við varnargarða hafi heppnast einkar vel.
„Það eru mjög þokkalegar líkur á að bæði Grindavík og orkuverið í Svartsengi sleppi, þó það sé ekkert öruggt,“ segir Magnús Tumi.
Í samtali við fréttastofu sagði Hjördís Guðmundsdóttir, upplýsingafulltrúi hjá Almannavörnum, að stofnunin væri við öllu búin ef skyndilega kæmi til eldgoss. Hættustig hafi verið í gildi síðan í janúar. Þó væri ekki ástæða til að lýsa yfir neyðarstigi fyrr en til eldgoss kæmi.