Körfubolti

For­kaups­réttur fyrir Ís­lendinga í fimm daga

Sindri Sverrisson skrifar
Martin Hermannsson og félagar í íslenska landsliðinu hafa fengið frábæran stuðning áður á stórmótum og búast má við mikilli stemningu í Póllandi í lok ágúst.
Martin Hermannsson og félagar í íslenska landsliðinu hafa fengið frábæran stuðning áður á stórmótum og búast má við mikilli stemningu í Póllandi í lok ágúst. vísir/Anton

Skýrari mynd er nú komin á það hvernig miðasölu verður háttað fyrir EM karla í körfubolta. Íslenskir stuðningsmenn gætu þurft að hafa hraðar hendur í lok mars.

Ísland mun leika í D-riðli mótsins í Katowice í Póllandi, ásamt heimamönnum og Slóvenum með Luka Doncic í broddi fylkingar.

Hin þrjú liðin í riðlinum, þar á meðal lið úr efsta styrkleikaflokki (Serbía, Þýskaland, Frakkland, Spánn), bætast svo við þegar dregið verður í riðli þann 27. mars. Eftir dráttinn hefst miðasalan.

Pólland valdi sér Ísland sem samstarfsþjóð, eða co-host, og segir KKÍ á vef sínum að þess vegna muni Íslendingar hafa forkaupsrétt af miðum fyrstu fimm dagana eftir að miðasalan fer í gang. KKÍ muni gefa út sérstakan hlekk að miðasölunni einhvern tímann á milli 27.-30. mars og að tilkynnt verði um það sérstaklega.

Íslendingar oftast öruggir um 2.577 miða

Flesta og mögulega alla leikdaga munu að minnsta kosti 2.577 miðar standa til boða fyrir Íslendinga og verða sætin fyrir aftan bekk íslenska liðsins, í Spodek-höllinni. Miðarnir kosta ýmist 50, 75 eða 95 evrur, eða minnst 7.300 krónur og mest 13.800 krónur.

Leikdagarnir verða 28., 30. og 31. ágúst sem og 2. og 4. september. Leiktímar eru 14:00, 17:00 og 20:30 að staðartíma, eða klukkan 12:00, 15:00 og 18:30 að íslenskum tíma.

Kvöldleikur við Pólverja

Heimamenn munu alltaf spila síðasta leik dagsins svo að eini kvöldleikur Íslands verður við Pólverja.

Miðasölunni verður skipt í tvennt þannig að hægt verður að kaupa miða sem gildir á tvo fyrstu leiki hvers dags og svo annan sem gildir á lokaleik dagsins, sem sagt leik Pólverja.

Ef að leikur Íslands og Póllands verður laugardagskvöldið 30. ágúst verða einungis 1.500 miðar í boði fyrir Íslendinga, í stað 2.577 miða að lágmarki, en leikjadagskráin skýrist eftir dráttinn 27. mars.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×