Innlent

Manni kastað fram af svölum fyrir norðan

Jón Þór Stefánsson skrifar
Höfuðstöðvar lögreglunnar á Norðurlandi eystra eru á Akureyri.
Höfuðstöðvar lögreglunnar á Norðurlandi eystra eru á Akureyri. Vísir/Vilhelm

Manni var kastað fram af svölum í umdæmi lögreglunnar á Norðurlandi eystra á dögunum. Þetta kemur fram í færslu lögreglunnar, en þar er greint frá mörgum alvarlegum málum sem komu upp í umdæminu.

„Ofbeldishegðun í samfélaginu hefur aukist töluvert undanfarin misseri og hefur lögregla miklar áhyggjur af stöðunni,“ segir í færslunni.

Þar segir frá fleiri málum sem varða ofbeldi. Fram kemur að ekið hafi verið á gangandi vegfaranda sem var á göngustíg af ásetningi.

Í öðru máli hafi ökumanni verið veitt eftirför. Við fyrirhugaða handtöku hafi sakborningurinn ekið fyrirvaralaust á lögreglubíl. Við það hafi tveir lögreglumenn verið í mikilli hættu, en þeir munu hafa staðið við bílinn.

Á föstudag hafi maður ógnað lögreglumanni með hnífi við handtöku. Það mun hafa verið í svo miklu návígi að ekki mátti muna miklu að illa færi.

„Lögregla hefur haldlagt mikið af fíkniefnum undanfarið og rannsóknir í gangi er lúta að skipulagðri brotastarfsemi. Þá eru ótalin heimilisofbeldismál, líkamsárásir og kynferðisbrot sem eru því miður veruleiki,“ segir í tilkynningunni.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×