Erlent

Dánaraðstoð jókst um tíu prósent í Hollandi í fyrra

Hólmfríður Gísladóttir skrifar
Stærstur hluti þeirra sem fékk dánaraðstoð í fyrra þjáðist af langvinnum sjúkdóm á borð við krabbamein.
Stærstur hluti þeirra sem fékk dánaraðstoð í fyrra þjáðist af langvinnum sjúkdóm á borð við krabbamein. Getty

Einstaklingum sem fengu dánaraðstoð fjölgaði um tíu prósent í Hollandi í fyrra. Alls fengu 9.958 dánaraðstoð árið 2024, samanborið við 9.068 árið 2023.

Athygli vekur að meðal þeirra sem fengu dánaraðstoð voru 219 einstaklingar sem þjáðust af einhvers konar andlegum veikindum. Þeir voru 138 árið 2023 og tveir árið 2010.

86 prósent þeirra sem fengu dánaraðstoð í fyrra þjáðust hins vegar af langt gengnum líkamlegum sjúkdómum á borð við krabbamein.

Eftirlitsnefndir um framkvæmd dánaraðstoðar (RTE) hafa gefið frá sér yfirlýsingu þar sem þær hvetja lækna til að fara afar varlega þegar kemur að einstaklingum sem þjást af andlegum veikindum og ráðfæra sig við sérfræðinga í geðheilbrigðismálum og lækna sem sérhæfa sig í dánaraðstoð.

Málsmeðferð ábótavant í sex tilvikum

RTE komust að þeirri niðurstöðu að málsmeðferð hefði verið ábótavant í sex tilvikum í fyrra, þar sem andleg veikindi komu við sögu. Þar á meðal í máli eldri konu sem vildi fá að deyja eftir að áverkar gerðu það að verkum að hún gat ekki lengur fengið útrás fyrir þrifatengdar áráttur sínar.

Sumir sérfræðingar hafa lýst yfir áhyggjum af þróun mála, sérstaklega fjölgun tilvika þar sem ungt fólk vill fá að deyja sökum andlegra erfiðleika. Damiaan Denys, prófessor í geðlækningum við Amsterdam University Medical Center, segir vafa leika á um getu ungs fólks til að taka svo afdrifaríka ákvörðun.

Dánaraðstoð var lögleidd í Hollandi árið 2002. Aðeins læknir má veita dánaraðstoðina og hana má aðeins samþykkja að vel ígrunduðu máli. Þá verða einstaklingar sem fá dánaraðstoð að þjást óbærilega og eiga enga von um bata.

Hér má finna umfjöllun Guardian um málið.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×