Íslenski boltinn

Besta-spáin 2025: Hamra járnið meðan það er heitt

Íþróttadeild Vísis og Stöðvar 2 Sports spáir Breiðabliki 1. sæti Bestu deildar karla í sumar.

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Breiðablik vann KA í Meistarakeppni KSÍ á sunnudaginn, 3-1. Höskuldur Gunnlaugsson, fyrirliði liðsins, heldur hér á Meistarabikarnum. vísir/hulda margrét

Íþróttadeild Vísis og Stöðvar 2 Sports spáir Breiðabliki 1. sæti Bestu deildar karla í sumar.

Íþróttadeild Vísis og Stöðvar 2 Sports spáir að venju fyrir um gengi liðanna í Bestu deild karla með árlegri spá sinni fyrir mótið. Keppni í deildinni hefst með leik Íslandsmeistara Breiðabliks og Aftureldingar í dag, laugardaginn 5. apríl.

Íþróttadeild spáir Breiðabliki 1. sæti Bestu deildarinnar í sumar og að Blikar verði Íslandsmeistarar annað árið í röð.

Framan af síðasta tímabili læddust Blikar aðeins með veggjum. Voru í fínni stöðu í toppbaráttunni en fáir töluðu um þá sem líklega Íslandsmeistarakandítata. Eftir jafntefli við Vestra, 2-2, í byrjun júlí gerði Halldór Árnason, þjálfari Breiðabliks, hins vegar breytingar á liðinu. Fyrirliðinn Höskuldur Gunnlaugsson fór á miðjuna og Davíð Ingvarsson á vinstri kantinn. Ísak Snær Þorvaldsson hrökk svo í gang um svipað leyti.

Halldór Árnason gerði Breiðablik að Íslandsmeisturum á sínu fyrsta tímabili sem þjálfari í efstu deild.vísir/hulda margrét

Blikar fóru á mikið flug, unnu tíu af næstu tólf leikjum sínum, gerðu tvö jafntefli og fótboltáhugafólk fékk ósk sína uppfyllta, úrslitaleik Breiðabliks og Víkings í Víkinni 27. október 2024. Þar voru Blikar sterkari, unnu 0-3 sigur og urðu Íslandsmeistarar í annað sinn á þremur árum og þriðja sinn í sögu félagsins.

grafík/bjarki

Breiðablik mætir nú til leiks sem meistari. Titilvarnir þeirra grænu voru ekki glæsilegar 2011 og 2023 en þeir hafa væntanlega lært af reynslunni. Þeir héldu Höskuldi sem var valinn leikmaður ársins í fyrra og hafa fengið sterka leikmenn.

Fyrir áramót komu Óli Valur Ómarsson, Ágúst Orri Þorsteinsson og Valgeir Valgeirsson og toguðu meðalaldurinn í liðinu vel niður. Eftir áramót bættust Anton Logi Lúðvíksson og Tobias Thomsen svo í hópinn.

grafík/bjarki

Ísak sneri aftur til Rosenborg og Damir Muminovic fór í ævintýrareisu til Suðaustur-Asíu. Búist er við því að hann snúi aftur í Smárann en stærsta spurningarmerkið við Breiðablik mínútu í mót er miðvarðastaðan. 

Viktor Örn Margeirsson verður þar við hlið annað hvort Arnórs Gauta Jónssonar, Daniels Obbekjær eða Ásgeirs Helga Orrasonar. Damir mun svo styrkja vörnina þegar hann kemur en hann hefur verið einn besti leikmaður Breiðabliks undanfarin ár og er orðinn næstleikjahæstur í sögu félagsins.

grafík/bjarki

Blikar eru með ógnvekjandi breidd á miðjunni og í kantstöðunum en spurningin er hvernig skarðið hans Ísaks verður fyllt. Óli Valur hefur spilað sem fremsti maður í vetur og gert það vel og Tobias leit vel út í sigrinum á KA í Meistarakeppni KSÍ um síðustu helgi og skoraði í þeim leik.

Hjá Breiðabliki er allt til alls til að endurtaka leikinn frá því í fyrra. Hópurinn er breiður og inniheldur marga hæfileikaríka leikmenn í bland við trausta liðsmenn. Þeir eru líka búnir að bæta sterkum leikmönnum við sem hungrar eflaust í að vinna titla með þeim grænu. Blikar ætla sér einnig eflaust að láta að sér kveða í Evrópukeppni eins og 2023.

Gamli HK-ingurinn Valgeir Valgeirsson kom til Breiðabliks frá Svíþjóð.vísir/hulda margrét

Það er fjandanum erfiðara að verja titil og það hefur ekki gerst síðan 2018 þegar Valur, undir stjórn Ólafs Jóhannessonar, vann tvö ár í röð. En Breiðablik er á góðum stað, hefur styrkt sig vel og í Kópavoginum er allt til alls til að endurtaka leikinn frá því í fyrra og hamra járnið meðan það er heitt.


Tengdar fréttir






×