Íslenski boltinn

Grind­víkingar sækja um í hamfarasjóð UEFA

Valur Páll Eiríksson skrifar
Thierry Favre, fulltrúi UEFA, kynnir sér aðstæður í Hópinu, knatthúsi Grindavíkur.
Thierry Favre, fulltrúi UEFA, kynnir sér aðstæður í Hópinu, knatthúsi Grindavíkur. Mynd/KSÍ

Fulltrúar Knattspyrnusambands Evrópu, UEFA, komu hingað til lands á dögunum til að leggja mat á keppnis- og æfingasvæði Grindvíkinga og ummerki jarðhræringa undanfarinna missera. Til stendur að sækja um styrk frá sambandinu vegna skemmdanna.

UEFA heldur úti sértilgerðum hamfarasjóði sem ætlað er að styrkja uppbyggingu félaga sem hafa verið fórnarlömb náttúruhamfara.

Knattspyrnusamband Íslands greinir frá því á heimasíðu sambandsins að Thierry Favre, fulltrúi UEFA, hafi komið hingað til lands í vikunni til að leggja mat á eyðileggingu sem jarðhræringar á Reykjanesskaga hafa valdið keppis- og æfingaaðstöðu Grindavíkur.

Á myndinni að ofan má sjá Favre líta ofan í heljarinnar sprungu sem myndaðist í knattspyrnuhúsinu Hópinu í Grindavík.

Heimsóknin er liður í fyrirhugaðri umsókn sem KSÍ mun, fyrir hönd Grindavíkur, senda sjóði UEFA.

Karla- og kvennalið Grindavíkur léku í Safamýri í Reykjavík síðasta sumar en kvennalið félagsins hefur sameinast Njarðvík. Heimaleikir þess sameinaða liðs mun spila í Reykjanesbæ.

Stefna knattspyrnudeildar félagsins er að karlalið Grindavíkur spili heimaleiki liðsins í Grindavíkurbæ.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×