Innlent

Fimm hand­teknir vegna líkams­á­rásar og haldið upp á „al­þjóð­lega Viagra daginn“

Hólmfríður Gísladóttir skrifar
Það er óhætt að segja að lögregla hafi sinnt nokkuð fjölbreyttum verkefnum í nótt.
Það er óhætt að segja að lögregla hafi sinnt nokkuð fjölbreyttum verkefnum í nótt. Vísir/Vilhelm

Níu gista fangageymslur lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu nú í morgunsárið, þeirra á meðal fimm sem voru handteknir grunaðir um líkamsárás í póstnúmerinu 104.

Engar frekari upplýsingar er að finna um málið í yfirliti lögreglu yfir verkefni næturinnar.

Einn var handtekinn vegna „heimilisófriðar“ í póstnúmerinu 105 og þá komu upp tvö tilfelli í umdæminu Kópavogur/Breiðholt þar sem ungmenni voru „til vandræða“.

Höfð voru afskipti af tveimur sem voru að sprengja flugelda „í tilefni af alþjóðlega Viagra deginum“, segir í yfirliti lögreglu.

Þrjár tilkynningar bárust um þjófnaði í verslunum í Kópavogi og þrár tilkynningar um tónlistarhávaða. Þá sinnti lögregla fimm verkefnum þar sem um var að ræða einstaklinga sem voru undir áhrifum.

Nokkrir voru stöðvaðir í umferðinni fyrir hin ýmsu brot á umferðarlögum og þá var einn fluttur á sjúkrabíl á slysadeild eftir að hafa fengið högg frá loftpúða í kjölfar umferðaróhapps.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×