Skoðun

Grænt ál frá Ís­landi er mikil­vægt fyrir sjálf­stæða Evrópu

Guðríður Eldey Arnardóttir skrifar

Nú hefur framkvæmdastjórn Evrópusambandsins birt aðgerðaráætlun til að styðja við aukna framleiðslu í stál og málmiðnaði innan bandalagsríkjanna[1]. Slíkt er mikilvægur þáttur í að efla sjálfstæði Evrópu gagnvart öðrum ríkjum, meðal annars til að Evrópa verði sjálfri sér nóg um framleiðslu lykilhráefna til iðnaðar.

Álver í Evrópu hafa á síðustu misserum verið að loka eða dregið úr framleiðslu sinni vegna hás orkukostnaðar og óstöðugs rekstrarumhverfis. Þannig hefur Evrópa í vaxandi mæli orðið háð innflutningi á áli, en um 50% af því áli sem er notað til iðnaðar í Evrópu er innflutt. Á sama tíma vex eftirspurn eftir áli um heim allan enda lykil hráefni í flestum varningi sem stuðlar að léttari samgöngum annars vegar og tækni sem dregur úr losun gróðurhúsalofttegunda hins vegar. Ál er þannig notað í öllum iðnaði sem tengist orkuskiptunum.

Það er þess vegna sem ál er skilgreint sem lykilhráefni af Evrópusambandinu[2] og í nýrri aðgerðaáætlun um stál og málma er stuðningur við frekari framleiðslu áls í Evrópu settur í forgang.

Nú er það svo að íslensku álverin selja allt ál sem þau framleiða til Evrópu og er hlutur þeirra í framleiðslu ESB/EFTA ríkjanna um fjórðungur. Álframleiðsla á Íslandi er þar með ekki bara mikilvæg fyrir Ísland, hún er einnig mikilvægur þáttur í að tryggja okkur sjálfstæða Evrópu. Þar með er Ísland orðið mikilvægur framleiðandi lykilhráefnis samkvæmt skilgreiningu ESB.

Evrópusambandið mótar nú markmið sem miða að því að fá neytendur og fyrirtæki til að greiða hærra verð fyrir vistvænar vörur. Byggt á þeim markmiðum mun íslenska álið verða enn verðmætara en það er í dag, en ál framleitt á Íslandi er með lægst kolefnisspor í heimi.

Álframleiðsla á Íslandi er mikilvægt framlag til loftslagsmála. Álframleiðsla ásamt raforkuframleiðslu á Íslandi er mikilvægur grunnatvinnuvegur þjóðarinnar. Álframleiðsla á Íslandi skilar gríðarlegum hagrænum og samfélagslegum ávinningi og með álframleiðslu á Íslandi leggjum við okkar af mörkum til að tryggja sjálfstæða Evrópu á víðsjárverðum tímum.

Höfundur er framkvæmdastjóri Samáls.


[1] Commission's Action Plan to secure a competitive and decarbonised steel and metals industry

[2] Critical Raw Materials Act: https://eur-lex.europa.eu/legal-content/EN/TXT/?uri=OJ:L_202401252




Skoðun

Sjá meira


×