Skoðun

Ekki er allt sem sýnist

Ólafur Helgi Marteinsson skrifar

Fjármálaráðherra fullyrti nýverið úr ræðustól Alþingis að verðmyndun á fiski á Íslandi væri ákveðin með sýndarviðskiptum innan sjávarútvegsfyrirtækjanna. Þessi fullyrðing er röng og eingöngu til þess fallin að villa almenningi sýn.

Meginreglan er að verð á fiski á Íslandi ræðst af endanlegu söluverði þeirra afurða sem unnar eru úr fiskinum. Verðið á fiskinum (hráefninu) er hlutfall af afurðaverði. Íslenskur sjávarútvegur hefur þróast þannig að veiðar og vinnsla eru að mestu á sömu hendi, fyrirkomulag sem hefur skilað íslensku samfélagi miklum ávinningi.

Ísland-Noregur

Samanburður á tveimur fyrirtækjum – annað í Noregi en hitt á Íslandi – staðfestir þetta með óyggjandi hætti. Norska fyrirtækið, líkt og flest önnur norsk sjávarútvegsfyrirtæki, sinnir einungis lágmarksvinnslu, það er hausun áður en fiskurinn er sendur til vinnslu í láglaunalöndum. Íslenska fyrirtækið fullvinnur aflann hér á landi.

Þessi munur á fullvinnslu og frumvinnslu skilar sér í endanlegu afurðaverði: það er 16% hærra fyrir þorsk og 77% hærra fyrir ýsu hjá íslenska fyrirtækinu. Þar að auki er skattspor þess 88% hærra en þess norska, enda fer vinnslan fram á Íslandi og skapar störf og tekjur innanlands.

Ríkisstyrkt samkeppni

Þeir sem þekkja til sjávarútvegs hafa séð hvernig stórar og hátæknivæddar fiskvinnslur hafa verið reistar á láglaunasvæðum Evrópusambandsins með verulegum opinberum styrkjum. Þessar vinnslur njóta einnig ríkisstyrkja í daglegum rekstri og hafa niðurgreitt forskot í samkeppni um hráefni. Þessar vinnslur hafa verið að færa sig upp á skaftið á íslenskum fiskmörkuðum, ekki síst vegna þess hve kvóti Norðmanna í Barentshafi er lítill. Verð sem myndast við þessar aðstæður á fiskmörkuðum í útlöndum á nú að leggja til grundvallar við breytingu á veiðigjaldi á Íslandi.

Vanhugsuð atlaga

Með fyrirhuguðum breytingum á gjaldinu er ráðist að grundvallarforsendum íslensks sjávarútvegs, sem hefur skilað landi og þjóð meiri ávinningi af sjávarauðlindinni en flestum öðrum þjóðum. Skattar eru ágætlega skilgreindir í lögum og stjórnarskrá. Það væri því heiðarlegra af ráðherrum fjármála og atvinnuvega að tala um skatta þegar um skatta er að ræða í stað þess að fela sig á bak við orðagjálfur eins og „réttlæti“ og „leiðréttingu“. Atlaga að fyrirkomulagi veiða og vinnslu á Íslandi er vanhugsuð og verður ekki án neikvæðra afleiðinga, en þær hafa stjórnvöld þó ekki lagt neitt mat á.

Höfundur er formaður Samtaka fyrirtækja í sjávarútvegi.




Skoðun

Sjá meira


×