Körfubolti

Sjáðu nýjan þjálfara Ís­lands kynna sig

Sindri Sverrisson skrifar
Pekka Salminen og Hannes S. Jónsson með allt á Kristaltæru.
Pekka Salminen og Hannes S. Jónsson með allt á Kristaltæru. vísir/Anton

Vísir var með beina útsendingu frá blaðamannafundi KKÍ þar sem nýr þjálfari íslenska kvennalandsliðsins í körfubolta var kynntur.

Nýi þjálfarinn er finnskur reynslubolti og heitir Pekka Salminen. Hann hefur áður til að mynda þjálfað finnska kvennalandsliðið og verið aðstoðarþjálfari finnska karlalandsliðsins.

Upptöku frá fundinum má sjá í spilaranum hér fyrir neðan.

Þann 6. mars var greint frá því að Benedikt Guðmundssyni yrði ekki áfram þjálfari kvennalandsliðsins. Hann hafði stýrt því í sex ár.

Pekka Salminen hefur bachelor gráðu frá Finnish institute of sports: VeAT/International coaching. Hann hóf þjálfaraferil í karlaboltanum og varð meðal annars sænskur meistari tvisvar sinnum með Solna og vann einnig finnska titilinn með Kataja. Til gaman má getas að Pekka þjálfaði einn leikjahæsta landsliðsmann Íslands, Loga Gunnarsson, hjá Torpan Pojat.

Pekka hefur víðtæka reynslu af landsliðsþjálfun, en hann var aðstoðarþjálfari hjá karlaliði Finna frá 2001-2014 þar sem hann fór þrisvar með þeim á lokamót EuroBasket og einu sinni á lokamót WorldCup.

Árið 2015 var Pekka ráðinn aðalþjálfari A landsliðs kvenna hjá Finnlandi og þjálfaði hann liðið í átta ár. Á þeim tíma bar hann einnig ábyrgð á uppbyggingu á kvennastarfi landsliðanna frá U15 upp í A landslið.

Pekka hefur að undanförnu verið í fullu starfi hjá finnska sambandinu við þjálfun og einn af þeim sem séð hefur um þjálfaramenntun þeirra.

Fyrsta verkefni nýja þjálfarans verður undankeppni EM næsta haust.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×