Körfubolti

Pelikanarnir búnir að gefast upp

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Tímabilinu er lokið hjá Zion Williamson.
Tímabilinu er lokið hjá Zion Williamson. getty/Ben Brewer

Tvær stærstu stjörnur New Orleans Pelicans í NBA-deildinni spila ekki meira með á tímabilinu.

New Orleans er í fjórtánda og næstneðsta sæti Vesturdeildarinnar og á ekki lengur möguleika á að komast í úrslitakeppnina.

Því hefur verið ákveðið að Zion Williamson og CJ McCollum spili ekki meira með New Orleans í vetur. Williamson glímir við meiðsli í baki og á meðan McCollum er meiddur á fæti.

Williamson lék aðeins þrjátíu leiki í vetur. Í þeim var hann með 24,6 stig, 7,2 fráköst og 5,3 stoðsendingar að meðaltali. Miklar væntingar voru gerðar til Williamsons þegar hann kom inn í NBA 2019 en meiðsli og oft slæmt líkamlegt ásigkomulag hafa hins vegar sett strik í reikning hans.

Frá því New Orleans valdi Williamson með fyrsta valrétti í nýliðavalinu fyrir sex árum hefur hann aðeins spilað 214 leiki og missti meðal annars af öllu tímabilinu 2021-22.

McCollum spilaði 56 leiki í vetur og var með 21,1 stig og 4,1 stoðsendingu að meðaltali í þeim. Hann kom til New Orleans frá Portland Trail Blazers fyrir þremur árum.

NBA



Fleiri fréttir

Sjá meira


×