Körfubolti

„Hann er lang­besti varnar­maðurinn í þessari deild“

Smári Jökull Jónsson skrifar
Jóhann Þór Ólafsson er þjálfari Grindavíkur.
Jóhann Þór Ólafsson er þjálfari Grindavíkur. vísir/Anton

Jóhann Þór Ólafsson þjálfari Grindavíkur var ánægður með sigurinn gegn Val í Bónus-deildinni í kvöld. Þetta var fyrsti sigur Grindvkinga í síðustu tólf leikjum að Hlíðarenda og kemur liðinu í 2-1 forystu í einvígi liðanna í 8-liða úrslitum.

„Við erum búnir að setja upp flottar og öflugar frammistöður og gerðum það aftur í kvöld. Mjög ljúft að ná í sigur og taka forystuna í einvíginu. Ég er mjög sáttur,“ sagði Jóhann Þór við Andra Má Eggertsson á Stöð 2 Sport eftir leikinn í dag.

Grindavík byrjaði leikinn af miklum krafti og komst í 13-4 í upphafi leiks.

„Það er komið að þessu og þó þetta sé fyrsta umferð þá eru þetta tvö hörkulið sem eru að berjast. Til að vinna Valsarana hér þá þurfum við að vera klárir. Við vorum það og gegnumgangandi allan leikinn. Sóknarlega stirðir á köflum en varnarlega sterkir og það skipti sköpum.“

Jóhann Þór segir að liðið geti þó nýtt gæðin í liði sínu betur en sagði liðið hafa gert það á kafla undir lokin þegar liðið bjó til forystuna sem á endanum skyldi að.

„Við erum að gera vel og erum með gæði í okkar liði sem mér finnst við vera að nýta þokkalega, mættum nýta aðeins betur en við gerðum það á þessum kafla og slitum þá frá okkur sem gaf okkur andrými.“

Taiwo Badmus leikmaður Vals skoraði aðeins sex stig í leiknum og Andri Már spurði Jóhann út í varnarleikinn gegn honum.

„DeAndre Kane er bara langbesti varnarmaðurinn í þessari deild, af bolta, á bolta og bara alls staðar sem hann er. Það er bara einfalt svar.“

Valur Orri Valsson kom ekkert við sögu hjá Grindavík í dag en það á sér eðlilega skýringu.

„Hann meiddi sig í leik tvö og var 50/50 í dag, við þurftum ekki að tefla á það að nota hann og hann fær bara meiri tíma til að ná sér.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×