Innlent

Skemmdar­verk unnin á Jóns­húsi í skjóli nætur

Rafn Ágúst Ragnarsson skrifar
Skemmdarvargurinn virðist hafa séð að sér en hann biðst afsökunar á veggjakrotinu í sjálfu veggjakrotinu. Það gerir hann að hætti Dana og skrifar: „Sorry.“
Skemmdarvargurinn virðist hafa séð að sér en hann biðst afsökunar á veggjakrotinu í sjálfu veggjakrotinu. Það gerir hann að hætti Dana og skrifar: „Sorry.“ Jónshús

Ljót skemmdarverk voru unnin á Jónshúsi í skjóli nætur. Óprúttinn aðili útkrotaði veggi hússins sem var eitt sinn heimili Jóns Sigurðssonar og er nú félagsheimili Íslendinga í Kaupmannahöfn.

Blaðamaður náði tali af Höllu Benediktsdóttur, umsjónarmann og ábúanda í Jónshúsi, þar sem hún stóð í því að rúlla málningu yfir óumbeðnu vegglistaverkin sem sett voru upp í skjóli nætur. Hún segir alveg ömurlegt að sjá svona gjörning á blíðviðrasömum Kaupmannahafnarvordegi.

„Það er nýbúið að gera húsið alveg einstaklega fallegt. Það er búið að laga alla glugga, þannig það er sérlega glæsilegt að sjá húsið. Það er því pínu bömmer að koma út á laugardagsmorgni í góðu veðri og það er búið að krota á allt húsið,“ segir hún.

Hún segir að hún og eiginmaður hennar muni mála vegginn til bráðabirgða með rúllunni og að fagmálari komi svo á þriðjudaginn kemur.

Húsið verður klappað og klárt fyrir páskana en það er stanslaus umferð um húsið og mikið á döfinni að sögn Höllu. Uppselt er á tvö páskabingó á vegum Íslendingafélagsins og svo verður haldin guðsþjónusta á íslensku annan í páskum líkt og hefð er fyrir.

Stærsti árlegi viðburður Jónshúss er svo haldinn á sumardaginn fyrsta, nefnilega hátíð Jóns Sigurðssonar. Þar verða veitt verðlaun Jóns Sigurðssonar sem veitt eru einstaklingi eða félagasamtökum íslenskum eða dönskum sem unnið hefur verk sem tengjast hugsjónum og störfum Jóns Sigurðssonar. Halla segir viðburðinn einstaklega hátíðlegan og hápunkt í starfi hússins.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×