Fjórir piltar voru um borð í bíl sem hafnaði utan vegar og slösuðust allir. Þrír voru fluttir í tveimur sjúkraflugvélum og einn með þyrlu Landhelgisgæslunnar til Reykjavíkur.
Um þrjátíu ungmenni voru á vettvangi þegar slysið varð en enn er verið að rannsaka tildrög þess. Hópur ungmenna ók í norðurátt þegar einn bíllinn kastaðist utan vegar með þeim afleiðingum að ökumaður og farþegarnir þrír slösuðust. Þrír piltanna sem slösuðust eru nemendur við Fjölbrautaskóla Norðurlands vestra.
„Við ætlum að bjóða þeim sem vilja til að koma saman og ræða málin í ljósi þessa hörmulega slyss. Hugmyndin er að lofa fólki að koma saman og blása aðeins og létta af sér,“ segir Þorkell Þorsteinsson, settur skólameistari skólans.
„Þetta snertir mjög marga, þetta er lítið samfélag. Stór hópur ungmenna kom að slysinu, einhverjir sem hafa þörf á að fá að tjá sig,“ segir hann.
Samverustundin fer fram í bóknámshúsi skólans klukkan fimm síðdegis á þriðjudaginn.