Íslenski boltinn

„Þetta er fyrir utan teig“

Ágúst Orri Arnarson skrifar
Hólmar Örn sá tvö gul með stuttu millibili og kostaði Valsmenn sigurinn, en hefði líklega ekki gert það ef dómurinn hefði verið réttur. 
Hólmar Örn sá tvö gul með stuttu millibili og kostaði Valsmenn sigurinn, en hefði líklega ekki gert það ef dómurinn hefði verið réttur.  Vísir/Guðmundur Þórlaugarson

Hólmar Örn Eyjólfsson var rekinn af velli með rautt spjald fyrir brot í uppbótartíma, sem dómarinn hélt að hefði verið inni í vítateig. Hólmar hélt fyrst að það væri verið að dæma aukaspyrnu fyrir Val, svo var ekki, en brotið átti sér stað fyrir utan teig. Engu að síður steig Jóhannes Kristinn Bjarnason á vítapunktinn og tryggði KR 3-3 jafntefli.

„Það er reynt að blokka mig þarna, ég hélt fyrst að hann væri að dæma aukaspyrnu fyrir okkur reyndar, en við hlaupum þarna saman og það er dæmt víti á eitthvað sem mér sýndist vera svona meter fyrir utan teig.“

Ertu búinn að sjá atvikið aftur?

„Ég er búinn að sjá það gróflega á einhverjum óskýrum myndum en það liggur alveg klárt fyrir að þetta er fyrir utan teig.“

Þú stendur þarna og ættir að vita það manna best?

„Já“ sagði Hólmar, ekki í nokkrum vafa um að KR hafi ekki átt að fá víti.

Endursýningar af atvikinu styðja hans mál. Brotið átti sér stað fyrir utan vítateig Vals og KR hefði átt að fá aukaspyrnu. Svekkjandi fyrir Valsmenn, sem þurftu að sætta sig við aðeins eitt stig úr leiknum.

„Mér fannst við spila á köflum vel í þessum leik. Fengum færi til að klára hann og gera út af við þetta, en KR liðið er flott. Orkumikið og spilar góðan fótbolta, þetta var bara hörkuleikur og væntanlega verið gaman að horfa á þetta“ sagði Hólmar að lokum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×