Erlent

Tveir skotnir til bana í Gauta­borg

Atli Ísleifsson skrifar
Skotárásin varð um klukkan 23:30 að staðartíma í gærkvöldi. Myndin er úr safni.
Skotárásin varð um klukkan 23:30 að staðartíma í gærkvöldi. Myndin er úr safni. EPA

Tveir menn á þrítugsaldri voru skotnir til bana í hverfinu Biskopsgården í Gautaborg í Svíþjóð í gærkvöldi. Einn maður til viðbótar var á staðnum og er talið að árásarmaðurinn hafi einnig ætlað að skjóta hann til bana. Sá slapp hins vegar ómeiddur.

Sænskir fjölmiðlar segja að árásarmaðurinn gangi enn laus og að ekki sé vitað að svo stöddu hver hafi þarna verið að verki.

Tilkynnt var um skotárás í Biskopsgården, sem er í vesturhluta Gautaborgar, skömmu fyrir miðnætti að staðartíma í gærkvöldi. Þegar lögreglu bar að garði fundust tveir menn á aldrinum 20 til 25 ára með skotsár. Þeir voru fluttir á sjúkrahús þar sem þeir létust af sárum sínum.

Þriðji maðurinn á staðnum – maður á fertugsaldri – slapp ómeiddur og hefur lögregla yfirheyrt hann í nótt.

Haft er eftir lögreglu að talið sé að mennirnir tveir hafi verið saman en reynt að flýja þegar skothríðin hófst. Nokkur spölur var á milli mannanna tveggja sem fundust á vettvangi. 




Fleiri fréttir

Sjá meira


×