Leik­hús draumanna stóð undir nafni í ótrú­legustu endur­komu síðari ára

Runólfur Trausti Þórhallsson skrifar
Harry Maguire skoraði sigurmarkið í uppbótartíma framlengingar.
Harry Maguire skoraði sigurmarkið í uppbótartíma framlengingar. James Gill/Getty Images

Manchester United er á leið í undanúrslit Evrópudeildarinnar eftir eina ótrúlegustu endurkomu sem Leikhús draumanna, Old Trafford, hefur séð.

Að loknum venjulegum leiktíma var staðan í kvöld 2-2. Gestirnir skoruðu tvívegis og virtust búnir að bóka farseðilinn í undanúrslit þegar Rauðu djöflarnir tókst á ævintýralegan hátt að skora þrívegis og bóka sæti sitt í undanúrslitum.

Það tók Rauðu djöflana aðeins tíu mínútur að komast yfir og var markið í glæsilegri kantinum. Snörp sókn endaði með því að Alejandro Garnacho fékk boltann inn á vítateig, hann sneri af sér tvo varnarmenn gestanna áður en hann lagði boltann fyrir markið þar sem Manuel Ugarte gat ekki annað en skorað af stuttu færi.

Ugarte kom Rauðu djöflunum yfir.Michael Regan/Getty Images

Fyrri hálfleikurinn var galopinn og eftir að komast yfir féllu heimamenn aðeins til baka og leyfðu gestunum að hafa boltann. Lyon fékk vissulega sín færi og þurfti André Onana að taka á honum stóra sínum oftar en einu sinni.

Man United fékk vissulega sín færi og var Bruno Fernandes til að mynda tvívegis nálægt því að koma boltanum í netið. Í fyrra skiptið setti hann boltann í slánna eftir að Diogo Dalot lyfti boltanum yfir vörn gestanna og Bruno skaut í fyrsta. Í seinna skiptið tíaði Rasmus Höjlund boltann upp fyrir Portúgalann sem lét vaða af löngu færi en boltinn flaug rétt framhjá markinu.

Það var í blálok fyrri hálfleiks sem Portúgalinn Dalot tvöfaldaði forystu heimaliðsins. Harry Maguire átti þá frábæra sendingu fram völlinn á Dalot sem hafði hrist varnarmann Lyon af sér. Bakvörðurinn náði skoti sem fór stöng og inn, staðan orðin 2-0 og þannig var hún í hálfleik. Var þetta 4999. mark Man United á Old Trafford. 

Rasmus, Diogo og Alejandro fagna.Shaun Botterill/Getty Images

Garnacho fékk gullið tækifæri til að klára einvígið þegar hann slapp einn í gegn snemma í síðari hálfleik. Eftir að fara illa með varnarmann Lyon var Argentínumaðurinn einn gegn markverðinum Lucas Perri. Líkt og aðrir markverðir þá las Perri hvað Garnacho myndi gera og varði vel, staðan því enn 2-0.

Ekki löngu síðar átti Corentin Tolisso góðan snúning inn á vítateig heimamanna. Onana varði hins vegar vel í markinu. Hvíldin um liðna helgi virtist greinilega gert mikið fyrir markvörðinn, eða hvað?

Heimamenn fengu góðar stöður til að gera út um leikinn en tókst það ekki og það nýttu gestirnir sér. Þegar tæpar tuttugu mínútur lifðu leiks minnkaði Lyon muninn eftir aukaspyrnu utan af kanti.

Tolisso horfir á eftir boltanum í netið.EPA-EFE/ADAM VAUGHAN

Heimamönnum gekk bölvanlega að koma boltanum frá og nýtti Alexandre Lacazette tækifærið. Hann skallaði boltann fyrir markið þar sem Tolisso skallaði í netið af stuttu færi og staðan orðin 2-1. Eftir það ógnuðu gestirnir markinu en leikmenn Man United hentu sér fyrir boltann, bókstaflega. Það dugði hins vegar ekki og sjö mínútum síðar hafði Nicolas Tagliafico jafnaði metin.

Aftur var vörn heimamanna úti að aka og náði Tagliafico skoti sem Onana tókst ekki að koma höndum á fyrr en boltinn hafði farið yfir marklínuna. Staðan orðin 2-2 og þannig var hún þegar venjulegum leiktíma lauk. Skömmu áður hafði Tolisso reyndar fengið sitt annað gula spjald og gestirnir því manni færri þegar framlengingin hófst.

Annað gult og þar með rautt.EPA-EFE/ADAM VAUGHAN

Þegar fyrri hálfleikur framlengingar var í þann mund að renna sitt skeið fékk varamaðurinn Malick Fofana boltann. Hann óð að teig heimaliðsins og má deila um hvort það hafi verið brotið á honum þegar þangað var komið en það þurfti ekki að skoða hvort um brot væri að ræða þar sem boltinn féll fyrir Rayan Cherki sem þrumaði knettinum af öllu afli niðri í hornið hægra megin og endurkoma gestanna fullkomnuð.

Þegar 110 mínútur voru liðnar af leiknum gerðist Luke Shaw brotlegur innan vítateigs og vítaspyrna dæmd. Lacazette fór á punktinn og tryggði Lyon að því virtist farseðilinn í undanúrslit Evrópudeildarinnar. Í næstu sókn fékk United hins vegar vítaspyrnu þegar brotið var á Casemiro, hann átti eftir að koma meira við sögu á næstu mínútum. Fyrirliðinn Fernandes fór á punktinn og minnkaði muninn. 

Þetta mark virðist hafa gefið leikmönnum Man United áður óséðan kraft á meðan gestirnir voru algjörlega búnir á því eftir að vera manni færri alla framlenginguna. Á lokamínútu framlengingar renndi Casemiro boltanum á varamanninn Kobbie Mainoo sem var allt í einu mættur inn á teig gestanna. Mainoo lét vaða og söng boltinn í netinu, staðan orðin 4-4 og vítaspyrnukeppni framundan.

Kobbie Mainoo elskar Old Trafford og Old Trafford elskar hann.EPA-EFE/ADAM VAUGHAN

Rúben Amorim þurfti hins vegar ekki að ákveða í hvaða röð leikmenn hans ættu að taka vítaspyrnur því skömmu eftir að Mainoo jafnaði metin í 4-4 átti Casemiro sendingu inn á teig. Þar reis Harry Maguire, framherji liðsins í framlengingunni, hæst og skallaði knöttinn í netið. Óverjandi fyrir Perri í markinu og Old Trafford bilaðist af geðshræringu. 

Í kjölfarið runnu síðustu mínútur leiksins út, gestirnir enn í auga stormsins og gátu vart hreyft legg né lið. Lokatölur á Old Trafford 5-4 og Man United vann einvígið því 7-5 samanlagt. Athletic Bilbao bíður svo í undanúrslitum.

Bein lýsing

Leikirnir






    Fleiri fréttir

    Sjá meira