Greint var frá því fyrir tíu dögum síðan að þrír hefðu verið handteknir í tengslum við meinta hópnauðgun í Reykjavík og að þeir hefðu sætt gæsluvarðhaldi í fimm daga. Einn mannanna er í farbanni. Málið er ekki það eina, þar sem sakborningar eru tveir eða fleiri, sem er á borði lögreglu.
„Núna í dag erum við með sex mál, þessi sex mál eru mál frá þessu ári,“ segir Bylgja Hrönn Baldursdóttir, aðstoðaryfirlögregluþjónn hjá kynferðisbrotadeild lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu.
Misjafnt er hve margir sakborningarnir eru. Bylgja segir þá fleiri en tvo og fleiri en þrjá í sumum málanna. Vel geti verið að þegar líður á rannsókn málanna að einhverjir missi réttarstöðu sakbornings. Meðalaldur bæði brotaþola og gerenda er á svipuðu róli, frá átján ára upp undir fertugt.
Líklegt að fleiri mál verði tilkynnt á næstu vikum
Samkvæmt heimildum fréttastofu er annað mál af þessu tagi á leið inn á borð lögreglu, þar sem einn meintra gerenda er þegar sakborningur í hópnauðgunarmáli sem er til rannsóknar hjá lögreglu.
Eru dæmi um að það sé sami gerandi í einhverjum málum?
„Eins og staðan er núna þá er ekki en ég hef heyrt af því. Ég á alveg von á því að það komi fleiri mál inn núna miðað við það sem við erum að sjá á samfélagsmiðlum,“ segir Bylgja.
Allt að tíu mál á ári
Frá árinu 2020 hafa milli sex og tíu mál af þessu tagi ratað inn á borð lögreglu, lang flest þeirra á höfuðborgarsvæðinu eða 39 af 47 á þessum sex árum.

„Hérna eru náttúrulega flestir skemmtistaðir og meira af fólki þá eðli málsins samkvæmt koma fleiri mál til okkar,“ segir Bylgja.
„Hlutfallslega myndi ég segja, núna er kominn miður apríl og við erum komin með sex mál. Síðan 2020 þá hefur þetta verið á bilinu sex upp í tíu mál. Mest tíu mál 2023 ef ég man rétt. Nú eru þau komin upp í sex og það er bara apríl.“