Innlent

Von á fallegum, lit­ríkum og kvikum norður­ljósum í kvöld

Kolbeinn Tumi Daðason skrifar
Sævar Helgi tók þessa mynd í gærkvöld klukkan 22:20 af norðurljósakórónu yfir Reykjavík á björtum og bláum himni. Þær birtast þegar svokallaðar norðurljósahviður eiga sér stað en þá blossa norðurljósin upp og verða bæði björt og kvik. Á þessu er von í kvöld.
Sævar Helgi tók þessa mynd í gærkvöld klukkan 22:20 af norðurljósakórónu yfir Reykjavík á björtum og bláum himni. Þær birtast þegar svokallaðar norðurljósahviður eiga sér stað en þá blossa norðurljósin upp og verða bæði björt og kvik. Á þessu er von í kvöld. Sævar Helgi Bragason

Góðar líkur eru á því að norðurljósin sæki landann heim í kvöld. Kröftugur segulstormur geisar um jörðina vegna kórónugoss sem varð á sólinni fyrir þremur dögum og varpaði orkuríkum sólvindi til jarðarinnar.

Þetta kemur fram í tilkynningu frá Sævari Helga Bragasyni vísindamiðlara og stjörnuáhugamanni. Verði aðstæður áfram eins í kvöld gæti fólk að sögn Sævars orðið vitni að ákaflega fallegum, litríkum og kvikum norðurljósum.

Best sé að gjóa augunum til himins upp úr 22:30 og fram yfir miðnætti. Hægt er að fylgjast með nákvæmum upplýsingum um geimveðrið á norðurljósa- og stjörnuskoðunarvefnum icelandatnight.is/is Þar má ennfremur sjá skýjahulukort en aðstæður eru kjörnar mjög víða um land.

Norðurljósatímabilið er senn á enda nú þegar ekki er lengur fullkomið myrkur á Íslandi. Tímabilið hefur að sögn Sævars verið með ágætum en gleðifregnin er sú að næstu ár verða norðurljósin í hámarki þegar virkni sólar fer smám saman dvínandi.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×