Fólkið á CIES reiknaði út hvaða leikmenn fæddir árið 2003 hafa spilað flesta leiki í fullorðinsbolta á ferlinum.
Þetta eru leikmenn sem halda upp á 22 ára afmæli sitt á þessu ári.
Real Madrid leikmaðurinn Jude Bellingham er efstur á listanum með 308 leiki en hann er að spila meira en 54 leiki á ári.
Bellingham er með yfirburðarforystu á listanum en næstur honum er Bayern München strákurinn Jamal Musiala sem hefur spilað 255 leiki.
Þriðji er síðan Benjamin Sesko hjá RB Leipzig sem þykir líkur til að verða keyptur í enska boltann í sumar.
Við Íslendingar eigum líka flottan fulltrúa á listanum því Ísak Bergmann Jóhannesson er í áttunda sætinu með 216 leiki eða 32,9 leiki á ári.
Ísak Bergmann var kominn snemma út í atvinnumennsku en hefur spilað með IFK Norrköping, FC Kaupmannahöfn og nú síðast með þýska liðinu Fortuna Düsseldorf.
Ísak er líka kominn með 33 leiki fyrir íslenska landsliðið.
Ísak er með 9 mörk og 6 stoðsendingar með Düsseldorf í þýsku b-deildinni á þessu tímabili og hefur alls spilað 56 leiki í þýsku b-deildinni. Hann spilaði 44 leiki í sænsku A-deildinni og 40 leiki í dönsku A-deildinni.