Fótbolti

Albert sagður á óska­lista Ever­ton og Inter

Runólfur Trausti Þórhallsson skrifar
Er Albert á leið í ensku úrvalsdeildina?
Er Albert á leið í ensku úrvalsdeildina? EPA-EFE/CLAUDIO GIOVANNINI

Knattspyrnumaðurinn Albert Guðmundsson er nokkuð óvænt sagður á óskalista Ítalíumeistara Inter Milan og enska úrvalsdeildarfélagsins Everton.

Hinn 27 ára gamli Albert er sem stendur á láni hjá Fiorentina í Serie A, efstu deild ítölsku knattspyrnunnar. Samningur Genoa við Fiorentina innihélt klásúlu sem gerði það að verkum að síðarnefnda liðið þyrfti að kaupa landsliðsmanninn að tímabilinu loknu.

Þrátt fyrir að hafa glímt við ýmis meiðsli á leiktíðinni hefur Albert komið við sögu í 27 leikjum í öllum keppnum, skorað 8 mörk og gefið 2 stoðsendingar. Hann var í byrjunarliðinu þegar Fiorentina tryggði sér sæti í undanúrslitum Sambandsdeildar Evrópu í gær, fimmtudag.

Það er TEAMtalk sem greinir frá því að David Moyes sé með Albert á óskalista sínum hjá Everton. Skotinn knái hefur heldur betur snúið við gengi bláa liðsins í Bítlaborginni og situr liðið sem stendur í 13. sæti ensku úrvalsdeildarinnar með 38 stig, jafn mörg og Manchester United.

Everton er þó ekki eina félagið sem hefur áhuga á Alberti en ríkjandi Ítalíumeistarar eru einnig sagðir renna hýru auga til KR-ingsins. Inter hafði einnig áhuga fyrir ári síðan en ákvað að gera ekkert þá.

Inter er sem stendur með þriggja stiga forystu á Napoli á toppi deildarinnar þegar sex umferðir eru eftir í Serie A. Fiorentina er í 8. sæti með 53 stig, sex á eftir Juventus í 4. sætinu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×