Íslenski boltinn

Pjakkarnir er­lendis þegar KR mætir Blikum

Valur Páll Eiríksson skrifar
Alexander Rafn (t.v.) og Sigurður Breki eru á leið í landsliðsverkefni með U16 ára landsliðinu og missa af þeim sökum af leik KR í Kópavogi. Hér fagna þeir með fyrirliðanum Aroni Sigurðarsyni.
Alexander Rafn (t.v.) og Sigurður Breki eru á leið í landsliðsverkefni með U16 ára landsliðinu og missa af þeim sökum af leik KR í Kópavogi. Hér fagna þeir með fyrirliðanum Aroni Sigurðarsyni. Facebook/KR

Ungstirnin Alexander Rafn Pálmason og Sigurður Breki Kárason munu ekki geta leikið með KR gegn Breiðabliki í fimmtu umferð Bestu deildar karla í fótbolta. Þeir verða erlendis í landsliðsverkefni.

KR greindi frá því á samfélagsmiðlum félagsins í dag að þeir Alexander og Sigurður fari með U16 landsliðinu á mót á vegum UEFA í Svíþjóð frá 1.-7. maí. Hópurinn kemur saman á mánudag, 28. apríl, degi eftir leik KR við ÍA.

Mót sem þessi eru ekki dagsett í samræmi við almenna landsliðsglugga A-landsliðs enda almennt gert ráð fyrir að drengir á þessum aldri leiki með 3. flokki fremur en í efstu deild.

Ekki er því tekið tillit til unglingamóta þegar leikjum í efstu deildum er raðað upp og stangast verkefnið á við leik Breiðablik og KR á Kópavogsvelli þann 5. maí.

Óskar Hrafn Þorvaldsson verður því án tvímenningana sem hafa vakið athygli í upphafi móts.

Sigurður Breki varð yngsti leikmaðurinn í sögunni til að byrja leik í efstu deild í 3-3 jafntefli KR við Val á dögunum. Örfáum dögum síðar lagði Sigurður Breki upp þrjú og Alexander Rafn skoraði þrjú í 9-1 sigri á KÁ í Mjólkurbikarnum.

Alexander Rafn sat allan tímann á varamannabekknum í 2-2 jafntefli KR við FH í gær en Sigurður Breki var frá vegna veikinda þar sem hann fékk eyrnabólgu.

Næsti leikur KR er við ÍA á sunnudag. Hann telst sem heimaleikur liðsins en fer fram á Avis-vellinum í Laugardal vegna framkvæmda vesturfrá.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×