Íslenski boltinn

„Kom bara í hörkustandi inn í þennan leik“

Ágúst Orri Arnarson skrifar
Aron Sigurðarson skoraði tvö mörk og lagði upp annað í endurkomu sinni úr leikbanni.
Aron Sigurðarson skoraði tvö mörk og lagði upp annað í endurkomu sinni úr leikbanni. vísir / jón gautur

„Við skulduðum heilsteypta frammistöðu, leikirnir búnir að vera frekar kaflaskiptir en mér fannst þetta bara níutíu mínútur af frábærum fótbolta, vinnusemi og liðsheild“ sagði fyrirliðinn Aron Sigurðarson eftir 5-0 sigur KR gegn ÍA. Hann sneri aftur úr leikbanni, í hörkuformi að eigin sögn, lagði upp mark og skoraði tvö.

Skagamenn komust samt í fín færi fyrstu mínúturnar og hefðu getað tekið forystuna.

„Mér fannst það meira skrifast á okkur, kannski aðeins of kaldir á boltann og þeir vinna hann. Man samt ekki eftir einhverju dauðafæri og eftir tuttugu mínútur tökum við algjörlega stjórn á leiknum… Frábær frammistaða og við getum byggt á þetta“ sagði Aron einnig í viðtali við Gunnlaug Jónsson á Stöð 2 Sport.

Aron sneri aftur úr leikbanni og minnti heldur betur á sig í kvöld.

„Jájá, þetta bann var bara eins og það var. Erfitt að fá þessa tvo leiki í bann en ég náði að æfa vel og koma með orku. Kom bara í hörkustandi inn í þennan leik og auðvitað geðveikt að fá að spila aftur.“

Aron dansaði skemmtilega framhjá varnarmanni í öðru marki sínu. vísir / jón gautur

KR lenti í meiðslavandræðum í upphafi móts og eiginlega neyddist til að gefa leikmönnum séns sem hefðu kannski ekki fengið hann annars. Út frá því virðist hins vegar vera að myndast breiður og góður hópur.

„Klárlega. Margir að fá sénsinn. Ungir og óhræddir menn sem eru að koma inn á í dag. Sem er bara geðveikt að geta nýtt allan hópinn og nú eru flest allir orðnir heilir sem að boðar bara gott“ sagði Aron að lokum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×