Erlent

Í­búar Gasa verði fluttir á brott „í þágu eigin öryggis“

Elín Margrét Böðvarsdóttir skrifar
Benjamín Netanjahú forsætisráðherra Ísrael.
Benjamín Netanjahú forsætisráðherra Ísrael. AP/Abir Sultan

Benjamín Netanjahú, forsætisráðherra Ísrael, boðar „nýjar og harðari“ aðgerðir á Gaza með það að markmiði að útrýma Hamas-samtökunum. Stjórnvöld í Ísrael höfðu þegar boðað stórsókn á Gasa en ríkisstjórnin samþykkti í morgun að hernema Gasaströndina og halda svæðinu um óákveðinn tíma. Í myndbandi sem forsætisráðherrann birtir á samfélagsmiðlum nú síðdegis bætir hann í og segir meðal annars að íbúar Gasa verði fluttir burt „í þágu eigin öryggis.“

Reuters fjallar um myndbandið sem Netanhjahú flytur á hebresku og er um fjórar og hálf mínúta. Ekki kemur hins vegar fram í máli forsætisráðherrans hversu mikið landsvæði stendur til að taka yfir eða í hve langan tíma, en fregnir herma að öll Gasaströndin kunni að vera undir. Þannig hefur AP fréttaveitan eftir tveimur ísraelskum embættismönnum að ætlunin sé að hernema alla Gasaströndina og vera þar áfram um óákveðinn tíma.

Forsætisráðherrann segir hins vegar að ísraelskir hermenn muni ekki ráðast inn á Gasa, fara í aðgerðir og hörfa svo til baka, „heldur sé ætlunarverkið hið gagnstæða,“ hefur Reuters eftir Netanjahú, og er þar gert ráð fyrir að hann eigi við að ekki standi til að yfirgefa Gasa heldur vera þar áfram.

Sjá einnig: Ætla að hernema Gasaströndina 

Ekki liggur heldur fyrir hvenær nákvæmlega Ísraelar hyggjast ráðast til atlögu í umræddum nýjum og hertum aðgerðum, en Reuters hefur einnig eftir ísraelskum embættismönnum að ekki verið farið af stað fyrr en eftir heimsókn Donalds Trump Bandaríkjaforseta til Miðausturlanda í næstu viku.

Viðvera Ísraelshers á Gasa er þegar veruleg en herinn er sagður hafa tekið stjórn á um þriðjungi landsvæðis á Gasaströndinni þar sem ríflega tvær milljónir íbúa búi við vosbúð, skort og yfirvofandi hungursneyð.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×