Sport

Ældi á svellinu eftir höfuð­högg

Sindri Sverrisson skrifar
Anthony Stolarz var á endanum fluttur á sjúkrahús eftir höfuðhöggin sem hann fékk í gær.
Anthony Stolarz var á endanum fluttur á sjúkrahús eftir höfuðhöggin sem hann fékk í gær. Getty/Michael Chisholm

Anthony Stolarz, markvörður Toronto Maple Leafs, kastaði upp og varð að yfirgefa svellið eftir tvö slæm höfuðhögg í leik gegn Florida Panthers í NHL-deildinni í íshokkí í gær.

Þetta var fyrsti leikur liðanna í annarri umferð úrslitakeppninnar og gátu Stolarz og félagar fagnað 5-4 sigri að lokum.

Það fór hins vegar um marga þegar hinn 31 árs gamli Stolarz fékk olnboga Sam Bennett í höfuðið og lá flatur eftir á svellinu.

Stolarz kom sér á fætur og hélt áfram að spila í tvær mínútur en skautaði svo að varamannabekknum og ældi þar, áður en hann yfirgaf höllina á börum og var fluttur á sjúkrahús til skoðunar.

Stolarz hafði fyrr í leiknum fengið pökkinn í höfuðið af slíku afli að gríma hans datt af. Telja sérfræðingar að þá þegar gæti markvörðurinn hafa fengið heilahristing þó að höggið frá Bennett hafi endanlega gert útslagið varðandi það að Stolarz gæti spilað meira.

Chris Nowinski, taugasérfræðingur og stofnandi Concussion Legacy Foundation, segir á Twitter að það verði að gera betur í að gæta að heilsu leikmanna vegna höfuðhögga. Það sé ekki gert með því að láta leikmann spila áfram eftir högg eins og Stolarz fékk í gær og þegar menn æli vegna höfuðmeiðsla sé það eina í stöðunni að leita á bráðamóttöku.

Craig Berube, þjálfari Toronto, var ekki í vafa um að refsa hefði átt Bennett fyrir höggið sem markvörður hans fékk:

„Olnbogi í höfuðið, augljóslega. Þetta gerist ekki augljósara. Ég er ekki viss um af hverju það var ekki dæmt á þetta. Ég skil að menn missi af sumum atvikum en þetta var augljóslega víti,“ sagði Berube.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×