Fótbolti

Meistara­deild Evrópu: Þar sem mark­menn eru mark­verðir

Runólfur Trausti Þórhallsson skrifar
Donnarumma sagði hingað og ekki lengra.
Donnarumma sagði hingað og ekki lengra. Lionel Hahn/Getty Images

Í liðinni viku lauk undanúrslitum Meistaradeildar Evrópu karla í knattspyrnu og nú er ljóst að Inter frá Mílanó á Ítalíu mun mæta París Saint-Germain frá Frakklandi. Bæði lið geta þakkað markvörðum sínum fyrir en báðir voru stórfenglegir milli stanganna í undanúrslitaeinvígum liða sinna.

Það hefur verið lenskan undanfarin misseri að ræða hvernig markverðir eru í fótunum. Uppáhald margra spekinga er að segja að ákveðinn markvörður sé það góður með boltann að hann gæti allt eins spilað á miðri miðjunni. Þegar líður á útsláttarkeppni Meistaradeildar Evrópu kemur hins vegar í ljós að helsta starf markvarðar er að koma í veg fyrir það að boltinn fari yfir marklínuna.

Thibaut Courtois, markvörður Real Madríd, hefur að mörgu leyti drottnað yfir öðrum markvörðum í Meistaradeildinni eins og Real hefur drottnað yfir öðrum félögum. Nú er hins vegar komið að öðrum að skína.

Hinn ítalski Gianluigi Donnarumma virtist um tíma ætla að enda eins og samlandi sinn Marco Veratti. Sá fór til Parísar og virtist njóta lífsstílsins meira en góðu hófi gegnir. Veratti var án efa einn hæfileikaríkasti miðjumaður Evrópu en líferni hans gerði það að verkum að hann hefur spilað í Katar frá 2023 þrátt fyrir að vera aðeins 32 ára gamall.

Donnarumma, sem eins ótrúlegt og það hljómar er aðeins 26 ára gamall, virtist hafa orðið líferni Parísar að bráð. Það er þangað til nú þegar líða tók á útsláttarkeppni Meistaradeildar Evrópu. Hann var hreint út sagt magnaður í báðum leikjum sínum gegn Arsenal.

Donnarumma kann vel við sig gegn enskum liðum, sama hvort um er að ræða félagslið eða landslið. Hann átti hverja markvörsluna á fætur annarri gegn Skyttunum hans Mikel Arteta og minnti fólk á af hverju hann var lengi vel talinn efnilegasti markvörður heims. Hver veit nema hann sé nú að taka við af Courtois sem kóngurinn í Meistaradeildinni?

Donnarumma þarf hins vegar að vinna Meistaradeildina, og líklega oftar en einu sinni, til að skáka Courtois. Ætli Ítalinn sér til fyrirheitna landsins þurfa framherjar París Saint-Germain að finna leið framhjá Yann Sommer í marki Inter.

Vissulega fundu Börsungar sex sinnum leiðina í gegnum vörn Mílanóliðsins og í kjölfarið leiðina framhjá Sommer. Það breytir því þó ekki að hann átti tvær ef ekki þrjár markvörslur í hæsta gæðaflokki þegar Inter vann Barcelona 4-3 í framlengdum leik í vikunni.

Spænska ungstirnið Lamine Yamal er eflaust enn að klóra sér í hausnum yfir því hvernig 36 ára gamall Svisslendingur - sem er aðeins 1.83 metri á hæð - kom í veg fyrir að hann gæti orðið Evrópumeistari með Barcelona innan við ári eftir að hann varð Evrópumeistari með Spáni.

Yamal skilur ekkert.Carl Recine/Getty Images

Sommer lék með Gladbach í nærri áratug áður en Bayern München sótti hann vegna meiðsla Manuel Neuer. Sumarið 2023 mætti Inter svo þar sem André Onana var seldur til Manchester United.

Það fer ekkert á milli mála að Inter kom betur úr þeim viðskiptum þar sem Sommer kostaði aðeins brot af því sem Onana var seldur á. Þá er Svisslendingurinn einfaldlega mun betri markvörður.

Úrslitaleikur Meistaradeildar Evrópu fer fram 31. maí á Allianz-vellinum í München og verður í beinni útsendingu Stöðvar 2 Sport 2.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×