Íslenski boltinn

Hafa notað sama byrjunarliðið í öllum leikjunum

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Davíð Smári Lamude er þjálfari Vestra sem hefur náð í þrettán stig í fyrstu sex leikjum sínum í Bestu deildinni og aðeins fengið á sig tvö mörk.
Davíð Smári Lamude er þjálfari Vestra sem hefur náð í þrettán stig í fyrstu sex leikjum sínum í Bestu deildinni og aðeins fengið á sig tvö mörk. vísir/anton

Vestri hefur komið liða mest á óvart í Bestu deild karla og er í 2. sæti með þrettán stig eftir sex umferðir. Mikill stöðugleiki hefur einkennt liðsval Davíðs Smára Lamude, þjálfara Vestra.

Í öllum sex leikjunum í Bestu deildinni hefur Davíð stillt upp sama byrjunarliðinu.

Byrjunarlið Vestra

  • Markvörður: Guy Smit
  • Miðverðir: Gustav Kjeldsen, Eiður Aron Sigurbjörnsson, Morten Ohlsen Hansen
  • Hægri bakvörður: Sergine Modou Fall
  • Vinstri bakvörður: Anton Kralj
  • Miðjumenn: Fatai Adebowale Gbadamosi, Jeppe Pedersen
  • Sóknarmiðjumenn: Daði Berg Jónsson, Diego Montiel
  • Framherji: Vladimir Tufegdzic

Mikið rót var á liði Vestra á síðasta tímabili en meiðsli settu stórt strik í reikning liðsins.

Núna ræður hins vegar stöðugleikinn för. Vestri hefur sem áður sagði alltaf stillt fram sama byrjunarliðinu og þá hefur Gunnar Jónas Hauksson komið inn á sem varamaður í öllum sex leikjunum. Vestri hefur aðeins notað sautján leikmenn í deildarleikjunum sex. 

Davíð nýtti reyndar tækifærið þegar Vestri mætti HK í 32-liða úrslitum Mjólkurbikarsins í síðasta mánuði og gerði átta breytingar á byrjunarliði sínu.

Vestri fer í Kópavoginn á fimmtudaginn og mætir þar Íslandsmeisturum Breiðabliks í sextán liða úrslitum Mjólkurbikarsins. Áhugavert verður að sjá hvort eða hversu mikið Davíð Smári breytir byrjunarliði sínu.

Næsti deildarleikur Vestra er gegn Fram á sunnudaginn kemur.


Tengdar fréttir

Sjáðu skrípamörkin í Víkinni og öll mörkin úr sjöttu umferðinni

Mathias Rosenørn, markvörður FH, átti sannkallaðan martraðarleik þegar liðið tapaði fyrir Víkingi, 3-1, í 6. umferð Bestu deildar karla í gær. Víkingur er á toppi deildarinnar með þrettán stig líkt og Vestri og Breiðablik sem sigraði KA í gær, 0-1.

Uppgjörið: Vestri-Afturelding 2-0 | Vestramenn aftur á toppinn

Vestri hafði betur gegn Aftureldingu í hörkuleik á Kerecis-vellinum í Besta deild karla í knattspyrnu, lokatölur 2-0. Diego Montiel kom heimamönnum yfir með marki úr vítaspyrnu strax á 7. mínútu, eftir að brotið hafði verið á honum innan vítateigs.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×