Erlent

Stefnir í bar­áttu á milli frjáls­lyndis og í­halds í Pól­landi

Kjartan Kjartansson skrifar
Rafal Trzaskowski, borgarstjóri Varsjár, (t.v.) og Karol Nawrocki, íhaldssamur sagnfræðingur, (t.h.) mætast að öllum líkindum í seinni umferð pólsku forsetakosninganna eftir tvær vikur.
Rafal Trzaskowski, borgarstjóri Varsjár, (t.v.) og Karol Nawrocki, íhaldssamur sagnfræðingur, (t.h.) mætast að öllum líkindum í seinni umferð pólsku forsetakosninganna eftir tvær vikur. AP/Czarek Sokolowski

Frjálslyndur borgarstjóri Varsjár og íhaldssamur sagnfræðingur keppast að öllum líkindum um embætti forseta Póllands eftir fyrri umferð forsetakosninga þar í gær. Lítill munur virðist hafa verið á fylgi frambjóðendanna tveggja.

Formleg úrslit fyrri umferðarinnar liggja enn ekki fyrir en samkvæmt útgönguspám lítur út fyrir að Rafal Trzaskowski, borgarstjóri Varsjár, hafi fengið flest atkvæði, 31,2 prósent. Trzakowski er bandamaður Donalds Tusk forsætisráðherra og er Evrópusinni.

Útlit er fyrir að hann mæti Karol Nawrocki, sem naut stuðnings Laga og réttlætis, þjóðernisíhaldsflokksins sem stýrði Póllandi lengi, í seinni umferðinni eftir tvær vikur. Nawrocki fékk 29,7 prósent atkvæða samkvæmt útgönguspá Ipsos. Búist er við því að endanleg úrslit liggi fyrir annað hvort seinna í dag eða á morgun, að sögn AP-fréttastofunnar.

Nawrocki er pólitískur nýgræðingur. Hann talar fyrir íhaldssömum gildum og fullveldi Póllands. Bandaríkjaforseti tók á móti honum í Hvíta húsinu fyrr í þessum mánuði sem túlkað var sem stuðningsyfirlýsing við Nawrocki. Líkt og Bandaríkjaforseti hefur Nawrocki talað gegn Úkraínumönnum í sambandi við innrásarstríð Rússa.

Tveir frambjóðendur sem eru enn lengra til hægri en Nawrocki fengu samtals rúman fimmtung atkvæða í fyrri umferð kosninganna.

Forsætisráðherra og þingið fara með mest völd samvæmt pólskri stjórnskipan. Forsetinn hefur engu að síður umtalsverð völd, sérstaklega í utanríkis- og öryggismálum. Þá fer hann með neitunarvald yfir lögum sem þingið samþykkir. Andrzej Duda, fráfarandi forseti og íhaldsmaður, hefur ítrekað beitt því gegn stjórn Tusk á undanförnum mánuðum.


Tengdar fréttir

Sakar Rússa um að hafa brennt stærstu verslunar­miðstöð Póllands

Forsætisráðherra Póllands fullyrðir að útsendarar rússnesku leyniþjónustunnar hafi vísvitandi kveikt í stærstu verslunarmiðstöð landsins sem brann nærri til grunna í fyrra. Sökudólgarnir eru taldir hafa átt þátt í eldsvoða í nágrannaríkinu Litháen skömmu áður.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×