Erlent

Notuðu þúsundir mynda­véla til að vakta hergagnaflutninga

Samúel Karl Ólason skrifar
Tölvuþrjótarnir í Fancy bear hafa verið mjög virkir á Vesturlöndum um árabil.
Tölvuþrjótarnir í Fancy bear hafa verið mjög virkir á Vesturlöndum um árabil. Getty

Alræmdir rússneskir tölvuþrjótar eru sagðir hafa gert umfangsmiklar árásir á samtök, fyrirtæki og stofnanir sem koma að aðstoð Vesturlanda handa Úkraínumönnum. Eftir að innrás Rússa í Úkraínu hófst í febrúar 2022 jókst umfang þessara árása og hafa þeir meðal annars ráðist á myndavélakerfi á landamærum Úkraínu til að vakta flutninga hergagna.

Talið er að þeir hafi getað notað um tíu þúsund myndavélar á landamærum Úkraínu, við herstöðvar og lestarstöðvar og umferðarmyndavélar til að vakta hergagnaflutninga.

Í sameiginlegri yfirlýsingu frá yfirvöldum í Ástralíu, Bandaríkjunum, Bretlandi, Danmörku, Eistlandi, Frakklandi, Hollandi, Kanada, Póllandi, Tékklandi og Þýskalandi segir að árásir þessar hafi að mestu verið gerðar af hópi tölvuþrjóta á vegum leyniþjónustu rússneska hersins (GRU) sem gengur undir nafninu Unit 26165, eða Fancy bear.

Hópurinn hefur um árabil verið sakaður um tölvuárásir á Vesturlöndum. Þar á meðal eru árásir á þýska þingið árið 2015, landsnefnd Demókrataflokksins árið 2016 og voru þeir einnig sakaðir um að reyna að stela mikilvægum gögnum frá lyfjafyrirtækjum um þróun bóluefna gegn Covid.

Eftir innrásina og eftir að rússneski herinn náði ekki „markmiðum sínum“ munu tölvuþrjótar hópsins hafa byrjað að leggja meiri áherslu á hergagnaframleiðendur, innviði, tæknifyrirtæki, opinberar stofnanir og ýmsa aðra aðila sem koma að áðurnefndi aðstoð.

Þessar árásir hafa verið gerðar víða í Evrópu og í Bandaríkjunum.

BBC hefur eftir yfirmanni tölvuvarna hjá Google að allir þeir sem koma með nokkrum hætti að aðstoðinni handa Úkraínumönnum eigi að líta svo á að þeir séu skotmörk rússneskra tölvuþrjóta.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×