Innlent

Tjáir sig ekki um á­kæru: „Ég ætla að skoða þetta“

Samúel Karl Ólason og Jón Þór Stefánsson skrifa
Sigurjón Baltasar Vilhjálmsson, eða Bassi Maraj.
Sigurjón Baltasar Vilhjálmsson, eða Bassi Maraj. Vísir/Vilhelm

Sigurjón Baltasar Vilhjálmsson, sem gengur undir nafninu Bassi Maraj, hefur verið ákærður fyrir að ráðast á leigubílstjóra og fyrir vörslu fíkniefna. Hann er sagður hafa bitið, kýlt og tekið um háls mannsins, auk þess sem hann mun hafa vafið snúru um háls hans.

Einnig mun Bassi hafa hótað því að drepa leigubílstjórann, ef sá léti hann ekki hafa símann sinn aftur. Þetta var í febrúar 2023.

Í frétt Mannlífs, sem hefur ákæruna undir höndum, segir að leigubílstjórinn hafi tognað á hálsi, fengið blæðingu undir slímhúð hægra auga, bitför og verið marinn.

Bassi var ákærður fyrir líkamsárás og vörslu fíkniefna. Leigubílstjórinn hefur krafist rúmrar einnar og hálfrar milljónar króna, auk vaxta, í skaðabætur.

„Takk fyrir að láta mig vita“

Þegar blaðamaður Vísis náði tali af honum fyrr í dag virtist Bassi koma af fjöllum.

„Nú? Hinkraðu augnablik. Ég ætla að skoða þetta. Takk fyrir að láta mig vita!“ sagði Bassi og skellti á.

Svo þegar aftur náðist í hann sagðist hann upptekinn og vildi ekki tjá sig um málið.

Rifust um gjald og síma

Í frétt DV, sem byggir einnig á ákærunni og lögregluskýrslu, kemur fram að upptaka úr eftirlitsvél í leigubílnum sýni ekki snúru sem Bassi á að hafa vafið um háls leigubílstjórans. Þá sýnir upptakan að Bassi skipi bílstjóranum ítrekað að skila sér síma.

Bassi hafði fengið far úr miðbænum í Bryggjuhverfi og fannst honum þær fjórtán þúsund krónur sem leigubílstjórinn fór fram á of mikið. Þá fór hann úr bílnum án þess að borga og sagðist ætla að sækja vin sinn og fá hann til að borga fargjaldið.

Þá mun leigubílstjórinn hafa hlaupið út á eftir Bassa og tekið af honum símann.


Tengdar fréttir

Bassi Maraj og Patrekur í svínslegu stuði

Veitingastaðurinn Sæta svínið fagnaði átta ára afmæli sínu miðvikudaginn 10. apríl þar sem tónlist, glimmer, sirkus og svínslegt stuð setti sterkan svip á viðburðinn. Fjöldi gesta mætti og samfögnuðu tímamótunum.

Bassi Maraj hellir sér yfir Bjarna Benediktsson

Kosningabaráttan er hafin sem þýðir að frambjóðendur lenda í óvæntum ævintýrum. Formaður Sjálfstæðisflokksins lenti óvænt í hárblásaranum hjá helsta nýstirni Íslands.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×