Viðskipti innlent

4,5 milljarða hagnaður á fyrsta árs­fjórðungi

Atli Ísleifsson skrifar
Sævar Freyr Þráinsson er forstjóri Orkuveitu Reykjavíkur.
Sævar Freyr Þráinsson er forstjóri Orkuveitu Reykjavíkur. Vísir/Arnar

Orkuveita Reykjavíkur skilaði 4,5 milljarða króna hagnaði fyrstu þrjá mánuði ársins samkvæmt árshlutauppgjöri samstæðunnar sem samþykkt var af stjórn í dag.

Í tilkynningu segir að á sama tímabili árið 2024 hafi hagnaðurinn verið 2,9 milljarðar króna. Innan samstæðunnar eru, auk móðurfélagsins, Veitur, Orka náttúrunnar, Ljósleiðarinn og Carbfix.

„Tekjur fyrirtækjanna í samstæðunni jukust á tímabilinu um 7% frá fyrra ári og gjöld lækkuðu um sama hlutfall. Þrátt fyrir að launakostnaður hafi aukist milli ára þá lækkaði annar rekstrarkostnaður og á ársfjórðungnum fékk Orka náttúrunnar endurgreiddar um 450 milljónir króna vegna leiðréttingar á gjaldskrá Landsnets.

Veltufé frá rekstri nam 9,4 milljörðum króna en var 8,0 milljarðar á sama tímabili 2024. Fjárfestingar í varanlegum rekstrarfjármunum héldust svipaðar milli ára og námu nú 6,4 milljörðum króna. Mestar voru þær hjá Veitum, einkum tengdar eflingu hitaveitna til skemmri og lengri tíma,“ segir í tilkynningunni.

Haft er eftir Sævari Frey Þráinssyni, forstjóra Orkuveitunnar, að hann sé ánægður með rekstrarniðurstöðuna. „Styrkur Orkuveitunnar til að ráðast í nauðsynlegar fjárfestingar er mikill og vaxandi. Afkoman er góð og það er jákvætt að sjá vaxtagjöldin loksins lækka,“ segir Sævar Freyr.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×