Fótbolti

Hólmbert skiptir um fé­lag

Sindri Sverrisson skrifar
Hólmbert Aron Friðjónsson er að flytja frá Münster.
Hólmbert Aron Friðjónsson er að flytja frá Münster. Getty/Jürgen Fromme

Framherjinn Hólmbert Aron Friðjónsson er á meðal sjö leikmanna sem þýska knattspyrnufélagið Preussen Münster kveður í tilkynningu á heimasíðu sinni.

Hólmbert kom til Preussen Münster frá öðru þýsku félagi, Holstein Kiel, síðasta sumar og lék alls 23 leiki í þýsku 2. deildinni í vetur, þar af sjö í byrjunarliði. Þessi 32 ára leikmaður skoraði í þessum leikjum þrjú mörk.

Hólmbert hefur nú alls leikið 49 leiki í næstefstu deild Þýskalands, eftir að hafa fyrst spilað þar með Holstein Kiel árið 2021. Árið 2022 var hann að láni hjá Lilleström í Noregi.

Ekki er víst hvað tekur við hjá Hólmberti sem síðast lék hér á landi sumarið 2017 þegar hann var leikmaður Stjörnunar. Hann er uppalinn hjá HK en hefur einnig leikið með Fram og KR auk Stjörnunnar, og alls skorað 27 mörk í 91 leik í efstu deild hér á landi.

Hólmbert, sem á að baki sex A-landsleiki og skoraði í þeim tvö mörk, hefur á sínum ferli erlendis verið á mála hjá liðum í Skotlandi, Danmörku, Noregi, Ítalíu og Þýskalandi.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×