Eru smáþjóðir stikkfríar? Snæbjörn Guðmundsson skrifar 2. júní 2025 10:00 „Við erum of fámenn til að hafa áhrif.“ „Stóru ríkin bera mesta ábyrgð.“ „Enginn tekur eftir smáþjóðum eins og okkur.“ „Við höfum ekki slagkraft nema í samfloti með öðrum.“ Frasar sem þessir hafa dunið á okkur í umræðum um yfirstandandi þjóðarmorð Ísraela í Palestínu. Þeir snúa flestir að því sama, að rödd Íslendinga sé of lágvær til að skipta máli. Með þessu firra íslensk stjórnvöld sig ábyrgð gagnvart Palestínumönnum og örlögum þeirra. Jafnvel þótt morðæði Ísraela hafi frá upphafi innrásar þeirra á Gaza í október 2023 verið yfirgengilegt hefur það magnast í sífellu og núna, rúmum 600 dögum síðar, ætti öllum að vera ljóst að Ísraelar stefna að gjöreyðingu palestínsku þjóðarinnar á Gaza, og í kjölfarið á Vesturbakkanum. Samhliða árásunum hefur þrýstingur almennings á íslensk stjórnvöld aukist stöðugt enda stendur yfirgnæfandi meirihluti Íslendinga stjarfur frammi fyrir grimmdarverkunum. Nú hafa því nýir frasar tekið við hjá stjórnvöldum; þau hafa „tekið frumkvæði“, átt í margs konar „samræðum“ og segjast sífellt hafa áhyggjur af „stöðu mála“. Þrátt fyrir það læðist að manni sá grunur að frasarnir séu jafninnantómir og áður, og aðeins máttlaus lágmarksviðbrögð við áköllum almennings. Orð eru ekki ígildi beinna aðgerða. Aðgerðir á alþjóðasviðinu Einn stjórnarþingmaður sagði um daginn til afsökunar að hlutirnir „hreyfist hægt á alþjóðasviðinu“. Það eru ekki nýjar fréttir – það blasir við að alþjóðasamfélagið hreyfir sig löturhægt í aðgerðum gegn Ísraelum þótt það gæti vitanlega brugðist ofurhratt við ef nokkur vilji væri fyrir hendi. Raunar mætti segja að framtakssemi vestrænna þjóða gegn þjóðarmorðinu sé í þveröfugu hlutfalli við hraða stríðsvélar Ísraelsmanna sem tætir í sig íbúa og innviði Gaza. Hið minnsta 54 þúsund íbúar Gaza hafa verið myrtir á hryllilegan hátt – margir óháðir aðilar telja það reyndar allt of lágt mat. Utan þeirra liggja á annan tug þúsunda undir rústum bygginga og vel á annað hundrað þúsund einstaklinga eru særðir. Samanlagt eru myrtir, limlestir og líkamlega illa særðir líklegast á við hálfa íslensku þjóðina, um helmingur þeirra börn. Eftirlifendur munu bera andleg ör ævilangt. Íbúarnir sem hrakist hafa um allt Gaza undan hamfarakenndri stórsókn Ísraelshers í 19 mánuði segja sprengjuárásir þessa dagana linnulausari en nokkru sinni og hvergi mat eða eldivið að fá enda hafa Ísraelar komið í veg fyrir að hjálpargögn og vistir berist inn á svæðið í um þrjá mánuði. Tvær milljónir íbúa á Gaza eru þannig sveltar af árásarþjóðinni. Engum dylst að allt eru þetta gegndarlausir stríðsglæpir og margar alþjóðastofnanir, alþjóðasamtök og sérfræðingar á sviði stríðsglæpa telja þá jafngilda þjóðarmorði. Undir þessum kringumstæðum á engin þjóð að standa hjá eða færast undan því að grípa til allra tiltækra aðgerða til að stöðva þjóðarmorðið. Smáþjóðir hafa sömu skyldu til að bregðast við Samkvæmt alþjóðalögum eru allar þjóðir skyldugar til að bregðast við grimmdarverkum eins og glæpum gegn mannkyni og þjóðarmorði, burtséð frá stærð. Íslendingar bera sömu skyldur og stærri þjóðir til að bregðast á lagalegan, siðferðilegan og pólitískan hátt við yfirstandandi þjóðarmorði Ísraela á Palestínumönnum. Eðlilega nær sú skylda til raunhæfra aðgerða í samræmi við getu og styrk hverrar þjóðar. Skyldan er þó engu að síður til staðar og hún er ófrávíkjanleg. Engum blöðum er um það að fletta að viðbrögð og beinar aðgerðir Íslendinga hingað til hafa verið máttlausar eða sama og engar. Þótt stjórnvöld lýsi núna yfir áhyggjum og segist taka þátt í óljósu samtali við aðrar þjóðir er fráleitt að telja slíkt duga. Hver dagur skiptir sköpum fyrir íbúa Gaza á einmitt þessari stundu og máttleysi er óbein afstaða með Ísraelum og glæpum þeirra. Siðferðilegt gjaldþrot smáþjóðar? Á hátíðarstundum stæra Íslendingar sig af af áhrifum okkar á alþjóðavettvangi; fyrsti þjóðkjörni kvenforseti heims, fyrsti samkynhneigði forsætisráðherrann, heimsfrægir tónlistarmenn og rithöfundar, þjóð í fararbroddi grænnar orkunýtingar og náttúruverndar. Að öllu þessu leyti teljum við okkur hafa áhrif á alþjóðavettvangi. En hvað með mannúð og friðarboðskap? Um áratugaskeið var herleysi þjóðarstolt Íslendinga og eftir því var sannarlega tekið á alþjóðavettvangi. En nú, þegar staðið er frammi fyrir hryllingnum á Gaza, erum við skyndilega því sem næst áhrifalaus að sögn stjórnvalda. Raunin er hins vegar sú að það er óverjandi að skýla sér á bakvið smæð og bið eftir öðrum þjóðum svo loks sé hægt að aðhafast. Hvað ef stóru þjóðirnar beita sér ekki? Hvað ef samflotið sem íslenska ríkisstjórnin hangir á næst ekki? Hvað ef samstarfsgrundvöllur finnst ekki, eða hitt, að aðrar þjóðir bíði ekki eftir Íslendingum? Hvað ef ekkert raunverulega gerist? Það er siðferðilegt skipbrot að taka þátt í aðgerða- og afskiptaleysi vestrænna þjóða þegar þjóðarmorð Ísraela á Palestínumönnum blasir við. Íslensk stjórnvöld vita hvað á sér stað og verða að bregðast við. Þegar staðið er frammi fyrir hryllingnum á Gaza verða klisjur um vangetu smáþjóðar smánarlegur fyrirsláttur og einskis verðar. Kraftur smáþjóðar Mannkynssagan er full af einstaklingum, hópum og þjóðum sem syntu á móti straumnum af réttlætiskenndinni einni, óháð hugsanlegum afleiðingum þess. Oft veltir lítil þúfa þungu hlassi og Íslendingar hafa rödd sem þeim ber að nýta. Íslendingar voru fyrstir Vestur-Evrópuþjóða til að viðurkenna sjálfstæði Palestínu árið 2011 og rödd Íslendinga í hópi þeirra ríkja gæti reynst miklu sterkari en nokkurn grunaði, jafnvel skipt sköpum. Jafnvel þótt svo myndi ekki reynast þá myndi hún veita milljónum Palestínumanna von um breytingar og réttlæti umheimsins sem virðist láta sig einu gilda hver örlög þjóðar þeirra verða. Hvað gætu Íslendingar gert á meðan beðið er eftir öðrum þjóðum? Íslendingar eru blessunarlega herlaus þjóð. Það eitt og sér gæti reynst áhrifaríkt í boðskap friðar og upphafi að sannri andstöðu og fordæmingu á vopnasölu annarra þjóða til Ísraela. Ísland getur tekið sjálfstæða ákvörðun um algjört viðskiptabann gagnvart Ísrael, ekki einvörðungu til fyrirtækja á landtökubyggðum heldur skorið á öll viðskipti við árásarríkið – engin ástæða er til að bíða eftir öðrum þjóðum til þess. Samhliða því skyldu allir vopnaflutningar til Ísraels bannaðir um hafnir og flugvelli Íslands. Við getum dregið mjög úr og lýst yfir höftum á stjórnmálasambandi og samskiptum við Ísraela. Um leið ætti að margefla samband við Palestínumenn á öllum sviðum, diplómatískum en ekki síður á sviði menningarmála þar sem kerfisbundið hefur verið þaggað niður í röddum þjóðarinnar og palestínskra listamanna víða um heim. Því miður drógu yfirvöld og RÚV lappirnar nógu lengi til að koma í veg fyrir sniðgöngu í Eurovision en algjör sniðganga Ísraels á sviði menningar og mennta, sem og í öllum íþróttakeppnum er augljóst skref. Þá ætti ekki að skrifa undir opinbera samninga við fyrirtæki sem styðja þjóðarmorðið líkt og Rapyd. Að lokum ættu Íslendingar að óska eftir því að fá að styðja eða koma að málsókn Suður-Afríku á hendur Ísrael fyrir Alþjóðadómstólnum. Hugrekki smáþjóðar Vissulega myndi það krefjast nokkurs hugrekkis af stjórnvöldum smáþjóðar að stíga þannig fram á alþjóðasviðinu, ýta við og ögra nágrannaþjóðum sem sýna hræðilega meðvirkni eða jafnvel stuðning við stríðsvél Ísraela. En Íslendingar verða núna, þótt afar seint sé, að benda á hina augljósu glæpi Ísraela með eigin aðgerðum, óháð seinlátum viðbrögðum annarra ríkja. Hugrekkið sem þarf til þess er, þegar allt kemur til alls, ekki nema agnarögn í samanburði við hyldýpi þjóðarmorðsins og afmennskunarinnar sem Palestínumenn þola af hendi Ísraela. Rökstuðning við hörðum aðgerðum skortir alls ekki og stjórnvöld þurfa í raun ekkert nema sjálfstraust og raunverulegan vilja til aðgerða. Einkahagsmunir Íslendinga skipta hér engu máli, þeir blikna í samanburði við afleiðingar þjóðarmorðsins. Nú þegar eru afleiðingar árásanna á Gaza löngu óafturkræfar og það styttist hratt í augnablikið þar sem of seint verður að aðhafast nokkuð yfirleitt – þegar þjóðarmorðinu verður af lokið. Endum við Íslendingar þá í hópi þeirra sem stóðu hjá, aðgerðalausir sjónarvottar að þjóðarmorði, alvarlegasta glæp sem fyrirfinnst? Verður afsökun íslenskra stjórnvalda þá að segjast hafa „átt í samræðum“? Slíkt dugir ekki til að enda réttum megin í mannkynssögunni. Smáþjóðir eru ekki stikkfríar þegar kemur að stríðsglæpum og þjóðarmorðum. Við erum sjálfstæð þjóð með eigin utanríkisstefnu og getu til aðgerða strax í dag. Höfundur er jarðfræðingur. Viltu birta grein á Vísi? Sendu okkur póst. Senda grein Snæbjörn Guðmundsson Átök í Ísrael og Palestínu Mest lesið Framhaldsskólinn: horfum til framtíðar og finnum lausnir Simon Cramer Larsen Skoðun Hvers vegna læra börnin þín ekki neitt? Svarið gæti verið í speglinum Jónas Sen Skoðun Ég reyndi að byggja ódýrar íbúðir í Reykjavík Pétur Marteinsson Skoðun Kynhlutlaust klerkaveldi Haukur Þorgeirsson Skoðun Aðför að heildrænni endurhæfingu: Skammsýni á Reykjalundi Þórunn Hanna Halldórsdóttir,Elísabet Arnardóttir,Sigríður Magnúsdóttir,Þóra Másdóttir Skoðun Menntastefna á finnskum krossgötum Álfhildur Leifsdóttir Skoðun Er skóli án aðgreiningar barn síns tíma? Kolbrún Áslaugar Baldursdóttir Skoðun Ódýrt á pappír, dýrt í raun – og þjóðin blæðir Vilhelm Jónsson Skoðun 900 metrar sem geta breytt Grafarvogi Friðjón Friðjónsson Skoðun Samvinna, en ekki einangrun María Malmquist Skoðun Skoðun Skoðun Hvers vegna læra börnin þín ekki neitt? Svarið gæti verið í speglinum Jónas Sen skrifar Skoðun Ég reyndi að byggja ódýrar íbúðir í Reykjavík Pétur Marteinsson skrifar Skoðun Aðför að heildrænni endurhæfingu: Skammsýni á Reykjalundi Þórunn Hanna Halldórsdóttir,Elísabet Arnardóttir,Sigríður Magnúsdóttir,Þóra Másdóttir skrifar Skoðun Framhaldsskólinn: horfum til framtíðar og finnum lausnir Simon Cramer Larsen skrifar Skoðun Um taugafjölbreytileika Svava Ólafsdóttir skrifar Skoðun Ódýrt á pappír, dýrt í raun – og þjóðin blæðir Vilhelm Jónsson skrifar Skoðun Samvinna, en ekki einangrun María Malmquist skrifar Skoðun 900 metrar sem geta breytt Grafarvogi Friðjón Friðjónsson skrifar Skoðun Kerfi sem kosta skattgreiðendur Sölvi Breiðfjörð skrifar Skoðun Ákall til önugra femínista – Steinunni í borgarstjórn! Hrafnhildur Kjerúlf Sigmarsdóttir skrifar Skoðun Er skóli án aðgreiningar barn síns tíma? Kolbrún Áslaugar Baldursdóttir skrifar Skoðun Alvöru aðför að einkabílnum Búi Bjarmar Aðalsteinsson skrifar Skoðun Mótmæli bænda í Evrópu halda áfram – þegar viðvaranir fá engin svör Erna Bjarnadóttir skrifar Skoðun Setjum endurskoðun laga um Menntasjóð námsmanna í forgang Lísa Margrét Gunnarsdóttir,Kolbrún Halldórsdóttir skrifar Skoðun Um siðfræðingsvandamálið Steinunn Ólína Þorsteinsdóttir skrifar Skoðun Þegar fátt virðist gerast: Hvað er í raun að gerast þegar börn leika sér í leikskóla? Margrét Gígja Þórðardóttir,Ingibjörg Vilbergsdóttir skrifar Skoðun Kynhlutlaust klerkaveldi Haukur Þorgeirsson skrifar Skoðun Hugleiðingar um hitaveitu Eiríkur Hjálmarsson skrifar Skoðun Þéttingarstefna eða skynsemi? Ögmundur Ísak Ögmundsson skrifar Skoðun Hvers virði er starfsumhverfi myndlistarmanna? Jóna Hlíf Halldórsdóttir skrifar Skoðun Ekki gera ekki neitt Guðmundur Ingi Þóroddsson skrifar Skoðun Mönnun íslensks heilbrigðiskerfis til framtíðar í uppnámi Unnur Anna Valdimarsdóttir,Arna Hauksdóttir,Berglind Eva Benediktsdóttir,Bjarni Elvar Pétursson,Heiða María Sigurðardóttir,Helga Bragadóttir,Ólafur Ögmundarson,Sólveg Ása Árnadóttir,Sædís Sævarsdóttir skrifar Skoðun Mjódd framtíðar - hjarta Breiðholts Sara Björg Sigurðardóttir skrifar Skoðun Opið bréf til frambjóðenda í Reykjavík: Hættum frösunum – leysum leikskólavandann með raunverulegum aðgerðum Nichole Leigh Mosty skrifar Skoðun Það þarf ekki fullkomið fólk til að móta gott samfélag. Það þarf fólk sem er tilbúið að vera til staðar Liv Åse Skarstad skrifar Skoðun 32 dagar Magnea Gná Jóhannsdóttir skrifar Skoðun Blóraböggull fundinn! Jenný Gunnbjörnsdóttir skrifar Skoðun Skaðaminnkun Rauða krossins Ósk Sigurðardóttir,Sigríður Ella Jónsdóttir skrifar Skoðun Áfram, hærra Logi Pedro Stefánsson skrifar Skoðun Reykjavík stígi alla leið Þórdís Lóa Þórhallsdóttir skrifar Sjá meira
„Við erum of fámenn til að hafa áhrif.“ „Stóru ríkin bera mesta ábyrgð.“ „Enginn tekur eftir smáþjóðum eins og okkur.“ „Við höfum ekki slagkraft nema í samfloti með öðrum.“ Frasar sem þessir hafa dunið á okkur í umræðum um yfirstandandi þjóðarmorð Ísraela í Palestínu. Þeir snúa flestir að því sama, að rödd Íslendinga sé of lágvær til að skipta máli. Með þessu firra íslensk stjórnvöld sig ábyrgð gagnvart Palestínumönnum og örlögum þeirra. Jafnvel þótt morðæði Ísraela hafi frá upphafi innrásar þeirra á Gaza í október 2023 verið yfirgengilegt hefur það magnast í sífellu og núna, rúmum 600 dögum síðar, ætti öllum að vera ljóst að Ísraelar stefna að gjöreyðingu palestínsku þjóðarinnar á Gaza, og í kjölfarið á Vesturbakkanum. Samhliða árásunum hefur þrýstingur almennings á íslensk stjórnvöld aukist stöðugt enda stendur yfirgnæfandi meirihluti Íslendinga stjarfur frammi fyrir grimmdarverkunum. Nú hafa því nýir frasar tekið við hjá stjórnvöldum; þau hafa „tekið frumkvæði“, átt í margs konar „samræðum“ og segjast sífellt hafa áhyggjur af „stöðu mála“. Þrátt fyrir það læðist að manni sá grunur að frasarnir séu jafninnantómir og áður, og aðeins máttlaus lágmarksviðbrögð við áköllum almennings. Orð eru ekki ígildi beinna aðgerða. Aðgerðir á alþjóðasviðinu Einn stjórnarþingmaður sagði um daginn til afsökunar að hlutirnir „hreyfist hægt á alþjóðasviðinu“. Það eru ekki nýjar fréttir – það blasir við að alþjóðasamfélagið hreyfir sig löturhægt í aðgerðum gegn Ísraelum þótt það gæti vitanlega brugðist ofurhratt við ef nokkur vilji væri fyrir hendi. Raunar mætti segja að framtakssemi vestrænna þjóða gegn þjóðarmorðinu sé í þveröfugu hlutfalli við hraða stríðsvélar Ísraelsmanna sem tætir í sig íbúa og innviði Gaza. Hið minnsta 54 þúsund íbúar Gaza hafa verið myrtir á hryllilegan hátt – margir óháðir aðilar telja það reyndar allt of lágt mat. Utan þeirra liggja á annan tug þúsunda undir rústum bygginga og vel á annað hundrað þúsund einstaklinga eru særðir. Samanlagt eru myrtir, limlestir og líkamlega illa særðir líklegast á við hálfa íslensku þjóðina, um helmingur þeirra börn. Eftirlifendur munu bera andleg ör ævilangt. Íbúarnir sem hrakist hafa um allt Gaza undan hamfarakenndri stórsókn Ísraelshers í 19 mánuði segja sprengjuárásir þessa dagana linnulausari en nokkru sinni og hvergi mat eða eldivið að fá enda hafa Ísraelar komið í veg fyrir að hjálpargögn og vistir berist inn á svæðið í um þrjá mánuði. Tvær milljónir íbúa á Gaza eru þannig sveltar af árásarþjóðinni. Engum dylst að allt eru þetta gegndarlausir stríðsglæpir og margar alþjóðastofnanir, alþjóðasamtök og sérfræðingar á sviði stríðsglæpa telja þá jafngilda þjóðarmorði. Undir þessum kringumstæðum á engin þjóð að standa hjá eða færast undan því að grípa til allra tiltækra aðgerða til að stöðva þjóðarmorðið. Smáþjóðir hafa sömu skyldu til að bregðast við Samkvæmt alþjóðalögum eru allar þjóðir skyldugar til að bregðast við grimmdarverkum eins og glæpum gegn mannkyni og þjóðarmorði, burtséð frá stærð. Íslendingar bera sömu skyldur og stærri þjóðir til að bregðast á lagalegan, siðferðilegan og pólitískan hátt við yfirstandandi þjóðarmorði Ísraela á Palestínumönnum. Eðlilega nær sú skylda til raunhæfra aðgerða í samræmi við getu og styrk hverrar þjóðar. Skyldan er þó engu að síður til staðar og hún er ófrávíkjanleg. Engum blöðum er um það að fletta að viðbrögð og beinar aðgerðir Íslendinga hingað til hafa verið máttlausar eða sama og engar. Þótt stjórnvöld lýsi núna yfir áhyggjum og segist taka þátt í óljósu samtali við aðrar þjóðir er fráleitt að telja slíkt duga. Hver dagur skiptir sköpum fyrir íbúa Gaza á einmitt þessari stundu og máttleysi er óbein afstaða með Ísraelum og glæpum þeirra. Siðferðilegt gjaldþrot smáþjóðar? Á hátíðarstundum stæra Íslendingar sig af af áhrifum okkar á alþjóðavettvangi; fyrsti þjóðkjörni kvenforseti heims, fyrsti samkynhneigði forsætisráðherrann, heimsfrægir tónlistarmenn og rithöfundar, þjóð í fararbroddi grænnar orkunýtingar og náttúruverndar. Að öllu þessu leyti teljum við okkur hafa áhrif á alþjóðavettvangi. En hvað með mannúð og friðarboðskap? Um áratugaskeið var herleysi þjóðarstolt Íslendinga og eftir því var sannarlega tekið á alþjóðavettvangi. En nú, þegar staðið er frammi fyrir hryllingnum á Gaza, erum við skyndilega því sem næst áhrifalaus að sögn stjórnvalda. Raunin er hins vegar sú að það er óverjandi að skýla sér á bakvið smæð og bið eftir öðrum þjóðum svo loks sé hægt að aðhafast. Hvað ef stóru þjóðirnar beita sér ekki? Hvað ef samflotið sem íslenska ríkisstjórnin hangir á næst ekki? Hvað ef samstarfsgrundvöllur finnst ekki, eða hitt, að aðrar þjóðir bíði ekki eftir Íslendingum? Hvað ef ekkert raunverulega gerist? Það er siðferðilegt skipbrot að taka þátt í aðgerða- og afskiptaleysi vestrænna þjóða þegar þjóðarmorð Ísraela á Palestínumönnum blasir við. Íslensk stjórnvöld vita hvað á sér stað og verða að bregðast við. Þegar staðið er frammi fyrir hryllingnum á Gaza verða klisjur um vangetu smáþjóðar smánarlegur fyrirsláttur og einskis verðar. Kraftur smáþjóðar Mannkynssagan er full af einstaklingum, hópum og þjóðum sem syntu á móti straumnum af réttlætiskenndinni einni, óháð hugsanlegum afleiðingum þess. Oft veltir lítil þúfa þungu hlassi og Íslendingar hafa rödd sem þeim ber að nýta. Íslendingar voru fyrstir Vestur-Evrópuþjóða til að viðurkenna sjálfstæði Palestínu árið 2011 og rödd Íslendinga í hópi þeirra ríkja gæti reynst miklu sterkari en nokkurn grunaði, jafnvel skipt sköpum. Jafnvel þótt svo myndi ekki reynast þá myndi hún veita milljónum Palestínumanna von um breytingar og réttlæti umheimsins sem virðist láta sig einu gilda hver örlög þjóðar þeirra verða. Hvað gætu Íslendingar gert á meðan beðið er eftir öðrum þjóðum? Íslendingar eru blessunarlega herlaus þjóð. Það eitt og sér gæti reynst áhrifaríkt í boðskap friðar og upphafi að sannri andstöðu og fordæmingu á vopnasölu annarra þjóða til Ísraela. Ísland getur tekið sjálfstæða ákvörðun um algjört viðskiptabann gagnvart Ísrael, ekki einvörðungu til fyrirtækja á landtökubyggðum heldur skorið á öll viðskipti við árásarríkið – engin ástæða er til að bíða eftir öðrum þjóðum til þess. Samhliða því skyldu allir vopnaflutningar til Ísraels bannaðir um hafnir og flugvelli Íslands. Við getum dregið mjög úr og lýst yfir höftum á stjórnmálasambandi og samskiptum við Ísraela. Um leið ætti að margefla samband við Palestínumenn á öllum sviðum, diplómatískum en ekki síður á sviði menningarmála þar sem kerfisbundið hefur verið þaggað niður í röddum þjóðarinnar og palestínskra listamanna víða um heim. Því miður drógu yfirvöld og RÚV lappirnar nógu lengi til að koma í veg fyrir sniðgöngu í Eurovision en algjör sniðganga Ísraels á sviði menningar og mennta, sem og í öllum íþróttakeppnum er augljóst skref. Þá ætti ekki að skrifa undir opinbera samninga við fyrirtæki sem styðja þjóðarmorðið líkt og Rapyd. Að lokum ættu Íslendingar að óska eftir því að fá að styðja eða koma að málsókn Suður-Afríku á hendur Ísrael fyrir Alþjóðadómstólnum. Hugrekki smáþjóðar Vissulega myndi það krefjast nokkurs hugrekkis af stjórnvöldum smáþjóðar að stíga þannig fram á alþjóðasviðinu, ýta við og ögra nágrannaþjóðum sem sýna hræðilega meðvirkni eða jafnvel stuðning við stríðsvél Ísraela. En Íslendingar verða núna, þótt afar seint sé, að benda á hina augljósu glæpi Ísraela með eigin aðgerðum, óháð seinlátum viðbrögðum annarra ríkja. Hugrekkið sem þarf til þess er, þegar allt kemur til alls, ekki nema agnarögn í samanburði við hyldýpi þjóðarmorðsins og afmennskunarinnar sem Palestínumenn þola af hendi Ísraela. Rökstuðning við hörðum aðgerðum skortir alls ekki og stjórnvöld þurfa í raun ekkert nema sjálfstraust og raunverulegan vilja til aðgerða. Einkahagsmunir Íslendinga skipta hér engu máli, þeir blikna í samanburði við afleiðingar þjóðarmorðsins. Nú þegar eru afleiðingar árásanna á Gaza löngu óafturkræfar og það styttist hratt í augnablikið þar sem of seint verður að aðhafast nokkuð yfirleitt – þegar þjóðarmorðinu verður af lokið. Endum við Íslendingar þá í hópi þeirra sem stóðu hjá, aðgerðalausir sjónarvottar að þjóðarmorði, alvarlegasta glæp sem fyrirfinnst? Verður afsökun íslenskra stjórnvalda þá að segjast hafa „átt í samræðum“? Slíkt dugir ekki til að enda réttum megin í mannkynssögunni. Smáþjóðir eru ekki stikkfríar þegar kemur að stríðsglæpum og þjóðarmorðum. Við erum sjálfstæð þjóð með eigin utanríkisstefnu og getu til aðgerða strax í dag. Höfundur er jarðfræðingur.
Aðför að heildrænni endurhæfingu: Skammsýni á Reykjalundi Þórunn Hanna Halldórsdóttir,Elísabet Arnardóttir,Sigríður Magnúsdóttir,Þóra Másdóttir Skoðun
Skoðun Aðför að heildrænni endurhæfingu: Skammsýni á Reykjalundi Þórunn Hanna Halldórsdóttir,Elísabet Arnardóttir,Sigríður Magnúsdóttir,Þóra Másdóttir skrifar
Skoðun Ákall til önugra femínista – Steinunni í borgarstjórn! Hrafnhildur Kjerúlf Sigmarsdóttir skrifar
Skoðun Mótmæli bænda í Evrópu halda áfram – þegar viðvaranir fá engin svör Erna Bjarnadóttir skrifar
Skoðun Setjum endurskoðun laga um Menntasjóð námsmanna í forgang Lísa Margrét Gunnarsdóttir,Kolbrún Halldórsdóttir skrifar
Skoðun Þegar fátt virðist gerast: Hvað er í raun að gerast þegar börn leika sér í leikskóla? Margrét Gígja Þórðardóttir,Ingibjörg Vilbergsdóttir skrifar
Skoðun Mönnun íslensks heilbrigðiskerfis til framtíðar í uppnámi Unnur Anna Valdimarsdóttir,Arna Hauksdóttir,Berglind Eva Benediktsdóttir,Bjarni Elvar Pétursson,Heiða María Sigurðardóttir,Helga Bragadóttir,Ólafur Ögmundarson,Sólveg Ása Árnadóttir,Sædís Sævarsdóttir skrifar
Skoðun Opið bréf til frambjóðenda í Reykjavík: Hættum frösunum – leysum leikskólavandann með raunverulegum aðgerðum Nichole Leigh Mosty skrifar
Skoðun Það þarf ekki fullkomið fólk til að móta gott samfélag. Það þarf fólk sem er tilbúið að vera til staðar Liv Åse Skarstad skrifar
Aðför að heildrænni endurhæfingu: Skammsýni á Reykjalundi Þórunn Hanna Halldórsdóttir,Elísabet Arnardóttir,Sigríður Magnúsdóttir,Þóra Másdóttir Skoðun