Fótbolti

Glódís mætti ekki á æfingu

Ágúst Orri Arnarson skrifar
Glódís er að glíma við veikindi.
Glódís er að glíma við veikindi. vísir / arnar

Landsliðsfyrirliðinn Glódís Perla Viggósdóttir hefur ekki jafnað sig af magakveisunni sem neyddi hana af velli í gær og mætti ekki á æfingu íslenska landsliðsins í morgun.

Stelpurnar okkar máttu þola 1-0 tap gegn Finnlandi í fyrsta leik mótsins í gær. Glódís Perla fór af velli í hálfleik, eftir að hafa tvisvar sest í grasið og fengið aðhlynningu í fyrri hálfleik, vegna niðurgangs sem hún glímt við síðustu daga.

Landsliðið kom síðan saman á æfingu í morgun en Glódís var hvergi sjáanleg. Eftir æfinguna verður haldinn blaðamannafundur þar sem landsliðsþjálfarinn Þorsteinn Halldórsson verður spurður nánar út í stöðuna á fyrirliðanum.

Hélt að hún væri orðin góð

„Ég er búin að vera með magakveisu síðan eftir leikinn á móti Serbíu. Ég hélt ég væri orðin góð en ég var það ekki. Ég var bara með niðurgang,“ sagði Glódís í viðtali við RÚV eftir leik.

„Þetta er vonandi bara eitthvað sem gengur yfir. Við vorum að reyna að gera allt sem við gátum til að ná þessu. Við héldum að við værum búin að ná stjórn á þessu en greinilega ekki. Þetta er auðvitað bara glatað,“ sagði Glódís.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×