Erlent

Voru á há-áhættu lista BBC fyrir Glastonbury

Hólmfríður Gísladóttir skrifar
Hljómsveitin hefur bæði verið lofuð og löstuð fyrir uppátækið.
Hljómsveitin hefur bæði verið lofuð og löstuð fyrir uppátækið. Getty/Yui Mok

Hljómsveitin Bob Vylan var meðal sjö atriða á Glastonbury-tónlistarhátíðinni sem stjórnendur BBC höfðu metið sem há-áhættu atriði. Menn töldu sig hins vegar hafa gert ráðstafanir til að grípa inn í ef eitthvað kæmi upp á en svo reyndist ekki vera.

Bob Vylan komst í fréttirnar eftir að söngvari sveitarinnar, Pascal Robinson-Foster, kyrjaði „death, death got the IDF“ en IDF stendur fyrir „Israel Defence Forces“.

BBC sýndi frá tónlistarhátíðinni í beinni útsendingu og beinu streymi og um leið og Robinson-Foster fór af stað var skjátexta hent inn af framleiðendum til að vara við orðfærinu. 

Stjórnendur BBC hafa hins vegar viðurkennt að það hafi verið mistök að hætta ekki samstundis útsendingu og taka atriðið úr spilun.

Hljómsveitin hefur birt yfirlýsingu á X þar sem hún neitar að kalla eftir dauða gyðinga.

Greint hefur verið frá því að ríkismiðillinn muni í kjölfarið endurskoða umgjörð beinna útsendinga frá tónlistarviðburðum og að há-áhættu atriði verði ekki send út í beinni né streymt beint. 

Þá hafa ótilgreindir starfsmenn verið færðir til vegna málsins.

Tim Davie, forstjóri BBC, hefur harmað uppákomuna í yfirlýsingu til starfsmanna og beðið áhorfendur og gyðinga afsökunar. 

Hljómsveitin hefur verið afbókuð á viðburðum í Frakklandi og Þýskalandi og neitað um vegabréfsáritun til Bandaríkjanna. Þá er atvikið til rannsóknar hjá lögregluyfirvöldum. 

Hljómsveitin sætir einnig rannsókn lögregluyfirvalda í Lundúnum vegna ummæla á tónleikum í Alexandra Palace í maí. Þar er Robinson-Foster sagður hafa kallað eftir dauða allra hermanna Ísrael.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×