Erlent

Sænskur glæpa­foringi tekinn fastur í Tyrk­landi

Kjartan Kjartansson skrifar
Sænsk yfirvöld hafa lengi reynt að fá Tyrki til að vinna með þeim að því að hafa hendur í hári Ismails Abdo.
Sænsk yfirvöld hafa lengi reynt að fá Tyrki til að vinna með þeim að því að hafa hendur í hári Ismails Abdo. Vísir/Getty

Tyrkneska lögreglan handtók Ismail Abdo, sænskan glæpaforingja, í umfangsmiklum aðgerðum gegn glæpagengjum á fimm stöðum í landinu. Sænsk yfirvöld hafa viljað hafa hendur í hári Abdo eftir gengjastríð sem stigmagnaðist fyrir tveimur árum.

Alþjóðleg handtökuskipun á hendur Abdo er í gildi en sænska ríkisútvarpið segir ekki ljóst hvort að handtakan í vikunni hafi verið gerð á grundvelli hennar. Abdo er sagður á meðal nítján einstaklinga sem voru handteknir í lögregluaðgerðum gegn þremur glæpagengjum í Istanbúl, Adana, Mersin, Mugla og Antalya í tyrkenskum fjölmiðlum.

Abdo hefur verið lýst sem hægri hönd Rawa Majid, höfuðpaurs Foxtrot-glæpasamtakanna í Svíþjóð. Móðir Abdo var myrt í Uppsölum í september árið 2023 í blóðugum innanhúsátökum innan Foxtrot. Þrettán manns voru myrtir á þremur mánuðum í hjaðningarvígum sem fylgdu í kjölfarið.

Þrátt fyrir að Svíar hafi lýst eftir Abdo létu tyrknesk yfirvöld hann lausan eftir að hann var handtekinn við umferðareftirlit í fyrra. Norðmenn lýstu einnig eftir honum síðasta sumar vegna aðildar að morðtilræðum og alvarlegum fíkniefnabrotum. Alþjóðalögreglan Interpol setti Abdo, sem er tyrkneskur ríkisborgari, ofarlega á lista yfir eftirlýsta menn í byrjun árs.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×