Erlent

Stunguárás í Tampere hvorki talin hryðju­verk né rasísk á­rás

Kjartan Kjartansson skrifar
Lögreglumaður á vettvangi stunguárásarinnar við Ratina-verslunarmiðstöðina í Tampere í Finnlandi í gær.
Lögreglumaður á vettvangi stunguárásarinnar við Ratina-verslunarmiðstöðina í Tampere í Finnlandi í gær. AP/Saara Peltola/Lehtikuva

Lögreglan í Tampere í Finnlandi telur ekki að stunguárás í miðborginni í gær hafi verið hryðjuverk eða rasísk árás. Finnskur karlmaður á þrítugsaldri stakk og særði fernt fyrir utan verslunarmiðstöð. Hann segist ekki hafa þekkt fórnarlömb sín og valið þau af handahófi.

Árásin átti sér stað nærri Ratina-verslunarmiðstöðinni í miðborg Tampere síðdegis í gær. Tuttugu og þriggja ára gamall finnskur karlmaður stakk þrjár konur og einn karlmann og segir finnska ríkisútvarpið að einhver fórnarlambanna séu alvarlega særð. Árásarmaðurinn streittist ekki á móti lögreglu og var færður í varðhald strax.

Sakari Tuominen, yfirlögregluþjónn, sagði fréttamönnum að árásin hefði aðeins staðið yfir í örfáar mínútur. Hugsalegt sé að árásarmaðurinn verði ákærður fyrir tilraun til manndráps.

Maðurinn er sagður hafa játað sök en neitað að hann hafi ætlað að fremja hryðjuverka eða verið knúinn áfram af kynþáttahyggju eða pólitískum skoðunum. Hann myndi ekki á hvern hann réðst en hann hafi ekki þekkt fólkið.

„Sá grunaði sagði að allir væru óvinir og að hann hafi viljað binda enda á sínar eigin þjáningar á þennan hátt,“ sagði Tuominen.

Grunur leikur á að árásarmaðurinn hafi verið undir áhrifum þegar hann framdi ódæðið en niðurstöður rannsókna á því lágu ekki fyrir í gær.

Maðurinn á sakaferil að baki og var síðast dæmdur til fangelsisvistar í síðasta mánuði. Lögreglan segir óljóst hvers vegna hann gekk laus. Hann var sakfelldur fyrir stunguárás í heimahúsi árið 2023 og er með dóma á bakinu fyrir vopnuð rán.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×