Erlent

Vill safna í­búum Gasa í lokaðar búðir og flytja síðan á brott

Hólmfríður Gísladóttir skrifar
Israel Katz, varnarmálaráðherra Ísrael.
Israel Katz, varnarmálaráðherra Ísrael. EPA

Varnarmálaráðherra Ísrael, Israel Katz, segist hafa fyrirskipað hernum að undirbúa flóttamannabúðir, eða „mannúðarborg“ eins og hann kallar það, á rústum Rafah-borgar á Gasa.

Hugmyndin er að hleypa um það bil 600 þúsund íbúum inn í búðirnar, að stærstum hluta fólki á vergangi á al-Mawasi svæðinu. Íbúarnir yrðu látnir fara í gegnum öryggiseftirlit og yrði ekki leyft að yfirgefa búðirnar þegar inn væri komið.

Katz sagði lokamarkmiðið að hýsa alla íbúa Gasa í búðunum, þar til þeir yrðu að lokum fluttir á brott frá svæðinu.

Glæpur gegn mannkyninu

Íhaldssamir stjórnmálamenn í Ísrael hafa fagnað mjög hugmyndum Donald Trump Bandaríkjaforseti um að flytja íbúa Gasa á brott og hefja þar uppbyggingu á einhvers konar ferðamannaparadís. Sérfræðingar segja þær hins vegar fel í sér gróf mannréttindabrot.

Þeirra á meðal er Michael Sfard, einn af helstu mannréttindalögfræðingum Ísrael, sem segir áætlanir Katz hreinlega drög að glæpum gegn mannkyninu. 

Benjamin Netanyahu, forsætisráðherra Ísrael, sagði í Hvíta húsinu í gær að Ísrael og Bandaríkin ynnu að „betri framtíð“ fyrir Palestínumenn, í samvinnu við önnur ríki. Fólki yrði heimilað að vera um kyrrt en þeim sem vildu fara yrði gert kleyft að fara. 

Sfard segir hins vegar að undir núverandi kringumstæðum væri á engan hátt hægt að kalla brottflutning fólks „sjálfviljugan“, þar sem íbúar byggju við afar íþyngjandi og erfiðar aðstæður.

„Þegar þú hrekur einhvern frá heimalandi sínu í stríði þá er það stríðsglæpur. Ef það er gert í stórum stíl, eins og hann hefur áætlanir um, þá er það glæpur gegn mannkyninu,“ segir Sfard.

Hér má finna ítarlega umfjöllun Guardian um málið.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×