Handbolti

Skoraði yfir sex hundruð mörk á tíma­bilinu

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Mathias Gidsel fær hér rautt spjald hjá íslenska dómaranum Antoni Gylfa Pálssyni á úrslitahelgi Meistaradeildarinnar. Kannski eina leiðin til að stoppa þennan frábæra leikmann.
Mathias Gidsel fær hér rautt spjald hjá íslenska dómaranum Antoni Gylfa Pálssyni á úrslitahelgi Meistaradeildarinnar. Kannski eina leiðin til að stoppa þennan frábæra leikmann. Getty/Jürgen Fromme

Danski handboltamaðurinn Mathias Gidsel átti ótrúlegt tímabil með Füchse Berlin og danska landsliðinu.

Gidsel missti reyndar af sigri í Meistaradeildinni eftir hetjulega framgöngu Gísla Þorgeirs Kristjánssonar og Ómars Inga Magnússonar og félaga með Magdeburg.

Gidsel vann hins vegar þýsku deildina í fyrsta sinn á ferlinum, varð Ólympíumeistari með Dönum í ágúst og heimsmeistari með Dönum í byrjun febrúar.

Gidsel varð bæði markahæstur á Ólympíuleikunum í París með 62 mörk sem og á HM í Króatíu, Danmörku og Noregi með 74 mörk. Hann hefur orðið markahæstur á síðustu fjórum stórmótum handboltans.

Hann varð einnig markahæsti leikmaður Meistaradeildarinnar með 187 mörk og sá næstmarkahæsti í þýsku úrvalsdeildinni með 275 mörk.

Samtals skoraði Gidsel 615 mörk í 71 keppnisleik á tímabilinu með Füchse og danska landsliðinu sem eru ótrúlegar tölur.

Það gera 8,7 mörk í leik á þessum rétt rúmu tíu mánuðum. Þetta er hann að gera án þess að taka vítaköst sinna liða.

  • Mörk Mathias Gidsel á tímabilinu 2024-25:
  • Þýska deildin: 275 mörk í 33 leikjum
  • Þýski bikarinn: 17 mörk í 2 leikjum
  • Meistaradeildin: 187 mörk í 19 leikjum
  • HM 2025: 74 mörk í 9 leikjum
  • ÓL 2024: 62 mörk í 8 leikjum
  • Samtals: 615 mörk í 71 leik



Fleiri fréttir

Sjá meira


×