Erlent

Frakkar og Bretar ná saman um að skiptast á hælis­leit­endum

Hólmfríður Gísladóttir skrifar
Yfirvöld hafa gripið til þess ráðs að stöðva hælisleitendur með því að skera á gúmmíbátana í flæðarmálinu, áður en lagt er af stað. Ferðin yfir sundið er áhættusöm.
Yfirvöld hafa gripið til þess ráðs að stöðva hælisleitendur með því að skera á gúmmíbátana í flæðarmálinu, áður en lagt er af stað. Ferðin yfir sundið er áhættusöm. epa/Tolga Akmen

Yvette Cooper, innanríkisráðherra Breta, segist gera ráð fyrir því að framkvæmdastjórn Evrópusambandsins leggi blessun sína yfir fyrirætlanir Breta og Frakka um skipti á hælisleitendum.

Áætlunin felur það í sér að sumir hælisleitendur sem sigla yfir Ermasund til Bretlands verða fluttir aftur til Frakklands, gegn því að aðrir verði færðir frá Frakklandi til Bretlands.

Smáatriðin liggja ekki fyrir en hugmyndin er sú að gegn því að Frakkar taki á móti hælisleitendum frá Bretlandi, taki Bretar við hælisleitendum í Frakklandi sem eiga ættingja á Bretlandseyjum.

Keir Starmer, forsætisráðherra Bretlands, og Emmanuel Macron, forseti Frakklands, greindu frá áætluninni við lok opinberrar heimsóknar Macron. Vonir standa til þess að samkomulagið verði til þess að fólk veigri sér við því að gera sér áhættusama ferð yfir sundið.

Stjórnvöld hafa ekki staðfest um hvaða fjölda er að ræða en fregnir hafa borist af því að fyrst um sinn muni áætlunin aðeins ná til 50 hælisleitenda á viku, sem jafngildir sex prósentum af heildarfjöldanum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×