Innlent

Gísli Jóns í tveimur út­köllum frá mið­nætti

Sólrún Dögg Jósefsdóttir skrifar
Myndin er tekin í morgun. 
Myndin er tekin í morgun.  Landsbjörg

Björgunarskipið Gísli Jóns frá Ísafirði er á leið til Ísafjarðar með fótbrotinn göngumann sem sóttur var í Hornvík á Hornströndum í morgun.

Í fréttatilkynningu frá Landsbjörg segir að áhöfn Gísla hafi verið kölluð út á níunda tímanum og komið í Hornvík rétt upp úr klukkan ellefu. Tveir úr áhöfn björgunarskipsins ásamt sjúkraflutningamanni frá Ísafirði, hafi siglt á gúmmíbát í land til að sækja hinn slasaða og flytja um borð í björgunarskipið.

Engin sérstök hætta hafi verið á ferðum, viðkomandi ekki alvarlega slasaður og því ekki tilefni til bráðaflutnings. Gert sé ráð fyrir að björgunarskipið leggi að bryggju á Ísafirði rétt fyrir klukkan tvö.

Göngumaðurinn var sóttur á gúmmíbáti og færður yfir í skipið. Landsbjörg

Þetta var annað útkallið á björgunarskipið á síðustu 12 tímum. Rétt fyrir klukkan tvö í nótt var áhöfnin kölluð út ásamt áhöfninni á Svaninum frá Súðavík vegna tilkynningar um skemmtibát sem hafði strandað á Tjaldtanga, milli Seyðisfjarðar og Hestfjarðar í Ísafjarðardjúpi.

Fram kemur í tilkynningu að þegar að var komið hafi báturinn verið í fjörunni sem og tveir farþegar hans. Björgunarmenn hafi komið bátnum á flot og bátsverjar haldið áfram för.

Þá var áhöfn björgunarskipsins Varðar II á Patreksfirði kölluð út klukkan sjö morgun vegna fiskibáts sem hafði misst vélarafl, en skrúfa bátsins hafði losnað af.

Þegar tilkynningin var send út var Vörður II með bátinn í togi og réttókominn til hafnar á Patreksfirði.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×