Körfubolti

Stólarnir verða með í Evrópu­keppninni í vetur

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Sigtryggur Arnar Björnsson og félagar í Tindastól ætla að spila Evrópuleiki í Síkinu næsta vetur.
Sigtryggur Arnar Björnsson og félagar í Tindastól ætla að spila Evrópuleiki í Síkinu næsta vetur. Vísir/Diego

Körfuboltalið Tindastóls mun taka þátt í Evrópukeppni á komandi tímabili.

Stólarnir hafa skráð sig til leiks í Norður-Evrópudeildinni eða European North Basketball league. Þetta er staðfest bæði á miðlum Tindastóls sem og á miðlum keppninnar.

Tindastóll er fyrsta íslenska félagið sem tekur þátt í þessari Evrópukeppni.

Þetta er samt í annað skiptið sem Tindastóll er með í Evrópukeppni en liðið tók þátt í undankeppni FIBA Europe bikarsins haustið 2023.

Stólarnir unnu þá Parnu Sadam, 69-62, en töpuðu fyrir BC Trepca Mitrovica, 69-77 og sátu eftir.

Tindastóll varð í öðru sæti í Bónusdeildinni á síðustu leiktíð eftir tap í oddaleik um titilinn á móti Stjörnunni en liðið varð deildarmeistari.

Það verða á bilinu 18 til 27 lið sem taka þátt í keppninni á næsta tímabili.

Hvert lið mun spila fjóra heimaleiki og fjóra útileiki í riðlakeppninni. Tindastóll ætlar að spila heimaleiki sína í Síkinu sem verður þá í fyrsta sinn sem Evrópuleikur fer fram þar.

Það er ekki enn ljóst hversu mörg liðin verða og hvernig nákvæmt fyrirkomulag keppninnar verður.

Meðal liða sem hafa staðfest þátttöku eru enska félagið Bristol Flyers, hollenska félagið Donar, þýska félagið Mitteldeutscher BC, tékkneska félagið Opava og pólska félagið Dziki Varsjá.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×