Eng­lendingar á­fram eftir ó­trú­lega vítaspyrnukeppni

Siggeir Ævarsson skrifar
Smilla Holmberg getur ekki leynt vonbrigðum sínum eftir að hafa brennt af síðasta víti leiksins meðan Englendingar fagna sigri
Smilla Holmberg getur ekki leynt vonbrigðum sínum eftir að hafa brennt af síðasta víti leiksins meðan Englendingar fagna sigri Vísir/Getty

Ríkjandi Evrópumeistarar Englands sluppu heldur betur með skrekkinn gegn Svíþjóð í kvöld en úrslit leiksins réðust í ótrúlegri vítaspyrnukeppni þar sem níu vítaspyrnur fóru forgörðum.

Svíar gripu Englendinga algjörlega í bólinu í upphafi leiks þegar Kosovare Asllani kom Svíþjóð 1-0 yfir eftir tæplega tveggja mínútna leik. Vörn Englendinga leit vægast sagt illa út í upphafi leiks, þá sérstaklega Jess Carter, sem var næstum búin að gefa Svíum annað mark áður en fjórar mínútur voru liðnar af leiknum.

Stina Blackstenius kom Svíþjóð svo í 2-0 á 25. mínútu og Englendingar virtust hreinlega vera algjörlega heillum horfnir. En eftir þrefalda skiptingu á 70. mínútu snérist leikurinn algjörlega við og Englendingar jöfnuðu metin. 

Því þurfti að grípa til framlengingar sem var tíðindalítil en þá var komið að vítaspyrnukeppni sem var heldur betur tíðindamikil.

Englendingar tóku hverja ömurlegu vítaspyrnunni á fætur annarri, mögulega vegna þess að bestu skyttur liðsins voru farnar af velli. Það má heldur ekki taka neitt af Jennifer Falk, markverði Svíþjóðar, sem varði fjórar vítaspyrnur.

Jennifer Falk varð eins og berserkur í vítaspyrnukeppninniVísir/Getty

Eftir að hafa varið þrjár spyrnur fór Falk á línuna til að taka fimmtu spyrnu Svía. Það fór þó ekki betur en svo að hún tók spyrnu sem minnti helst á útspark og boltinn himinhátt yfir markið.

Hún varði reyndar næsti spyrnu en þá kom Lucy Bronze á punktinn með lærið vafið í bak og fyrir, bombaði á mitt markið og tryggði Englendingum sigur í bráðabana þar sem Smilla Holmberg brenndi af síðustu spyrnu leiksins í kjölfarið.

Englendingar komnir í 4-liða úrslit þar sem þær mæta Ítölum.

Bein lýsing

Leikirnir






    Fleiri fréttir

    Sjá meira