Innlent

Telur stuðning við ESB-viðræður til staðar

Jón Þór Stefánsson skrifar
Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir vonast til þess að Íslendingar segi: Já.
Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir vonast til þess að Íslendingar segi: Já. Vísir/Ívar

Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir utanríkisráðherra telur að meirihluti Íslendinga styðji áframhaldandi aðildaviðræður við Evrópusambandið.

Þetta kom fram í viðtali sem hún gaf Politico.

Í umfjöllun Politico er bent á skoðanakönnun Prósents frá lokum síðasta árs. Þar sögðust 58 prósent vera hlynntir atkvæðagreiðslu um aðildarviðræður að ESB, 27 prósent voru andvígir og 15 prósent hvorki né. Hins vegar sögðust 45 prósent hlynntir aðild að ESB, 35 prósent andvígir og 20 prósent hvorki né.

„Ég myndi segja að stuðningur almennings við að hefja viðræðurnar á ný sé til staðar,“ er haft eftir Þorgerði, og að viðræðurnar séu brýnar í ljósi stöðu heimsmálanna.

Þorgerður sagðist treysta þjóðinni til þess að taka ákvörðun um að halda áfram, og vonast hún til að Íslendingar muni segja já við áframhaldandi viðræðum.

Þá vilji hún hraða viðræðunum ef kosið verði með þeim, en haft er eftir henni að hún viðurkenni að viðkvæm og tilfinningaleg mál verði tekin fyrir, líkt og þau sem varða sjávarútveg, landbúnað og orku. Það væru líklega lykilmál fyrir komandi viðræður.

Kristrún Frostadóttir og Ursula  von der Leyen í Þórsmörk í dag.European Commission

Tilefni viðtalsins var Íslandsheimsókn Ursulu von der Leyen, forseta framkvæmdastjórnar Evrópusambandsins, sem nú stendur yfir.

Um heimsóknina sagði Þorgerður að hún undirstriki gott samband Íslands og ESB. Vonandi muni heimsóknin auka samvinnu þarna á milli, hvort sem Ísland gangi til liðs við Evrópusambandið eða ekki.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×