Körfubolti

Sagt að hann spili ekki aftur meðan Craig er með liðið

Valur Páll Eiríksson skrifar
Kristófer Acox er ekki í æfingahópi Íslands og fer ekki á EM.
Kristófer Acox er ekki í æfingahópi Íslands og fer ekki á EM. Vísir/Diego

Kristófer Acox er ekki í æfingahópi íslenska landsliðsins fyrir komandi Evrópumót sem hefst í lok ágúst. Tíðindin koma mörgum á óvart en þó ekki honum sjálfum. Landsliðsþjálfarinn tjáði honum í febrúar að hann myndi aldrei velja hann aftur.

Æfingahópur landsliðsins var kynntur í gær og þar var nafn Kristófers hvergi að finna. Hann hefur verið utan hópsins um hríð, eftir meiðsli sem hann varð fyrir í fimmta leik úrslitakeppninnar vorið 2024. Hann var þá ekki í hópnum þegar hann var kominn aftur á fullt í mars síðastliðnum.

Vísir spurði þá landsliðsþjálfarann Craig Pedersen út í stöðuna vegna meints ósættis þeirra á milli. Craig sagði það á milli hans og Kristófers og vildi ekki tjá sig frekar.

Í samtali við íþróttadeild segist Kristófer hafa vitað það síðan í febrúar að hann færi ekki á komandi Evrópumót og kom honum því ekki á óvart að vera ekki í æfingahópi Íslands.

„Ég er búinn að vita af þessu síðan í febrúar. Að ég yrði ekki hluti af þessum hópi. Maður beið svolítið eftir því að þetta yrði gefið út. Þetta er eitthvað sem ég er búinn að vita af í svolítinn tíma,“ segir Kristófer. Það hafi honum verið ljóst eftir sáttafund með Craig í febrúar, sem fór ekki eins og hann hefði kosið.

„Fundurinn endar í raun þannig að hann segir að svo lengi sem hann er að þjálfa liðið mun ég ekki vera partur af hópnum.“

Nánar verður rætt við Kristófer í Sportpakkanum á Sýn í kvöld þar sem hann segir nánar frá samskiptunum við Craig og ræðir vonbrigðin að fá ekki að spila á EuroBasket í haust.


Tengdar fréttir

„Trúi á fyrir­gefningu og að fólk eigi að fá annað tækifæri“

Sérfræðingar Bónus körfuboltakvölds eru sammála því að komandi úrslitakeppni sé mikilvæg á margan hátt fyrir Kristófer Acox leikmann Vals, bæði er varðar að bæta við titli í safnið en einnig varðandi mögulegt sæti hans í íslenska landsliðinu fyrir komandi Evrópumót en Kristófer hefur ekki verið valinn í liðið upp á síðkastið.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×